Fé og fjallmenn á fallegum degi

Það heyrist hó í smölum, gelt í hundum og jarm í kindum. Himinninn er heiðskír, örlítil gjóla og féð rennur niður hlíðarnar vænt og fallegt. Smalamennskan hefur gengið vel það sem af er í austurleit á Flóa- og Skeiðamannaafrétti. Þeir sem fóru í lengstu leit eru búnir að vera viku á fjöllum þegar blaðamaður og ljósmyndari hitta fjallmennina á miðvikudagskvöldið og enn eru tveir smaladagar eftir.

Langur dagur er að kvöldi kominn. Féð er sett í girðingu á vikrunum í Þjórsárdal, þar sem það bíður næsta morguns þegar haldið verður áfram að smala og allt safnið rekið síðasta spotta niður til byggða, að Fossnesi í Gnúpverjahreppi. Föstudagurinn fer svo í að reka féð þaðan og niður í Reykjaréttir á Skeiðum þar sem réttað var á laugardaginn.

Það léttir yfir fjallmönnum þegar féð er komið í girðingu og þeir ríða í fjallakofann Klett þar sem þeir gista sína síðustu nótt á afrétt. Þeir voru komnir í hnakk inni á Skeiðamannafit klukkan sjö um morguninn og stigu úr hnakk við Klett tólf og hálfum tíma síðar.

Trússarinn býður upp á gúllasrétt með kartöflumús, menn taka hraustlega til matar síns. Sumir kasta sér strax í koju eftir kvöldmat og hrotur heyrast úr tveimur hornum, kannski er þetta bara lúr til að ná í smáorku fyrir frekara fjör um kvöldið. Þetta var sjöundi dagurinn á fjöllum hjá þeim sem lengst fóru, fimmti dagurinn hjá þeim sem fóru næstlengst og þriðji hjá svokölluðum Fiturum. Hjá Kletturum var þetta fyrsti dagurinn en þeir bætast við hópinn síðustu tvo dagana.

Smalað í austurleit á Flóa- og Skeiðamannaafrétti í Árnessýslu á …
Smalað í austurleit á Flóa- og Skeiðamannaafrétti í Árnessýslu á miðvikudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Á Flóa- og Skeiðamannaafrétt er farið í einar lengstu leitir á landinu. Afrétturinn er á Suðurlandi, á milli Stóru-Laxár og Fossár og nær alla leið inn í Arnarfell við Hofsjökul. Á þennan afrétt setja þeir fé sem búa á Skeiðunum, í Flóahreppi og í Árborg. Afréttinum er skipt í austur- og vesturleit. Innsti hluti afréttarins, fyrir innan Dalsá, er smalaður með Gnúpverjum, en svo skilur leiðir, vesturleit Flóa- og Skeiðamanna fer inn á Sultarfit og austurleit inn á Skeiðamannafit.

Hlakkar til á hverju ári

Það er værðarleg stemning í kofanum. Fjallmenn eru rjóðir í kinnum og úfnir eftir átök dagsins. Þeir spjalla saman yfir matnum, fara yfir daginn; hvað fór vel, hvað mátti betur fara. Hundarnir hanga í anddyrinu og fylgjast með eigendum sínum, eru þeim hliðhollir og hlýðnir. Góður smalahundur getur sparað fjallmanninum mörg sporin.

Fjallkóngurinn er íbygginn þar sem hann situr í koju og hripar niður í litla stílabók. Hann er að skipuleggja næsta dag og raða fjallmönnunum í leitir. Þetta er fimmta árið sem Ingvar Hjálmarsson, bóndi á Fjalli á Skeiðum, er fjallkóngur í austurleit Flóa- og Skeiðamanna og hann finnur til ábyrgðar sinnar.

Ingvar Hjálmarsson fjallkóngur.
Ingvar Hjálmarsson fjallkóngur. mbl.is/Árni Sæberg

„Féð þarf að komast heim og fólkið heilt heim, það er heilmikið að bera ábyrgð á því öllu saman, að allt gangi upp,“ segir Ingvar. Fjallmennirnir, 28 talsins þetta árið, eru settir í línu þvert yfir afréttinn með ágætis bili sín á milli og skiptir miklu máli að þeir haldi línunni svo vel smalist. Ingvar reynir að dreifa mönnum þannig að óvanir séu á milli vanra. Ingvar fór sína fyrstu fjallferð 15 ára, árið 1991, og hefur farið á hverju ári síðan, oft tvisvar, bæði í fyrrasafn og eftirsafn.

Hvers vegna sækir þú í þetta?

„Út af svona dögum eins og í dag, þá er þetta algjörlega meiriháttar. Þegar allt gengur þokkalega er þetta mjög skemmtilegt; útiveran, að vera með hestunum og hundunum og góðu fólki og horfa á féð renna hérna fram. Ég hlakka til á hverju ári að fara á fjall, ég er alltaf með hugann við þetta og hef verið frá blautu barnsbeini,“ segir fjallkóngurinn rámri röddu. „Það er búið að syngja mikið og góla dálítið á fé í dag. Hún daprast alltaf röddin í þessu, það er bara svoleiðis.“

Á kamrinum þegar Hekla byrjar að gjósa

Ari Björn Thorarensen er formaður Afréttamálafélags Flóa- og Skeiðamanna og líklega sá eini á landinu sem gegnir formennsku í slíku félagi og á ekki eina kind.

Ari fór í lengstu leitir núna, inn í Arnarfell, og var það í 19 skipti sem hann fer þangað. Hann hefur annars ekki tölu á fjallferðunum. „Ég er búinn að fara á hverju ári síðan 1980 og stundum tvisvar, þá í eftirsafn líka. Maður velur sér einhvern lífsstíl og fær dellu fyrir því. Þetta er dellan mín,“ segir Ari sem er mikill hestamaður og búsettur á Selfossi. Þátttaka hans í sveitarstjórnarmálum í Árborg varð til þess að hann varð fulltrúi sveitarfélagsins á afréttamálafélagsfundum og síðar kosinn formaður, enda fáir sem þekkja afréttinn jafn vel og Ari. „En ég held að það sé enginn formaður í afréttamálafélagi á Íslandi sem á enga kind,“ segir Ari og hlær en hann hefur ekki átt kind síðan hann var 15 ára þegar hann átti nokkrar skjátur með afa sínum á Eyrarbakka.

Ari Björn Thorarensen er formaður Afréttamálafélags Flóa- og Skeiðamanna.
Ari Björn Thorarensen er formaður Afréttamálafélags Flóa- og Skeiðamanna. mbl.is/Árni Sæberg

Ara finnst afskaplega gaman að smala þó hann vilji ekki smala eigin kindum. En hver er tæknin við smalamennskuna? „Ég veit ekkert hver hún er, nema bara að vera röskur og halda áfram,“ svarar hann hugsi. Ari ætlar að fara áfram á fjall, svo lengi sem heilsan leyfir og svo á hann sér draum sem hann vonar að rætist einn daginn. „Einn af kostunum við að vera í afréttamálafélaginu er að ég fékk að ráða hvar kamarinn hér við Klett var settur niður. Ég valdi góða staðsetningu með útsýni að Heklu og nú er það minn æðsti draumur að sitja á kamrinum með opnar dyr og sjá Heklu byrja að gjósa. Ég fer á fjall þangað til það gerist,“ segir hann og hlær.

101 stuðstemning

Trússarinn er sá sem fer á milli kofa með farangur fjallmanna og sér um að elda ofan í þá matinn. Elías Ívarsson hefur nú í nokkur ár trússað fyrir austurleitina og ætlar að halda því áfram um ókomin ár. „Þetta er svolítil framlenging á sumrinu. Vinnan leggst mjög vel í mig og svo er einveran alveg geggjuð og félagsskapurinn þar á milli,“ segir Elli eins og hann er alltaf kallaður. Á meðan fjallmenn smala gengur hann frá í kofunum, keyrir á dráttarvél í næsta kofa og undirbýr allt þar á meðan hann bíður eftir að fjallmenn skili sér. „Mér finnst fínt að vera ber að ofan í traktornum og syngja. Ég er alltaf með sama lagalistann, flotta gamla íslenska karlakórasöngva og gaula með þeim alla leiðina. Ég kem svo ferskur inn í sönginn þegar hann byrjar á kvöldinn. Á mánudagskvöldið svindluðum við reyndar. Við vorum með bluetooth hátalara og það endaði í Justin Bieber og Queen, það má eiginlega ekki fréttast,“ segir Elli kankvís. „Kofastemningin er best á mánudagskvöldum því þá er ekki smalamennska daginn eftir heldur riðið áfram innúr. Hin kvöldin eru oft rólegri en mánudagarnir eru pínu bara svona 101,“ segir Elli og skellir upp úr.

Matseðillinn samanstendur af hafragraut á morgnana, fjallmenn smyrja sér nesti fyrir daginn og svo er heitur matur á kvöldinn. „Á mánudögum eru kjötbollur, þriðjudagur kjötsúpa, svo var vaninn að hafa saltkjöt og baunir á miðvikudögum en núna var gúllas og hangikjöt á fimmtudögum og svo borða menn heima á föstudagskvöldum og þá er ég frjáls,“ segir Elli og í því koma nokkrir fjallmenn með óhreina diska inn í eldhús og þeir kunna reglurnar. Það má alls ekki stafla diskunum hjá Ella því þá verða þeir óhreinir báðum megin og uppvaskið tekur lengri tíma. „Þeir eru mjög snöggir að læra, þessir karlar.“

Trússarinn Elías Ívarsson.
Trússarinn Elías Ívarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtur hesta, kinda og náttúru á fjöllum

Ingibjörg Sæunn Jónsdóttir er frá Skeiðháholti 1 og var í fyrsta skipti að fara í lengri leit inn á Fit, en fram að þessu hafði hún komið undir Klett sem er stysta leit. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Maður er að spjara sig sjálfur, svo er skemmtileg menning í kringum þetta. Ég hef mjög gaman af hestum, kindum og náttúrunni og maður nýtur þess hér. Svo er gaman að hitta fólk sem hefur gaman af þessu líka,“ segir hún.

Ingibjörg Sæunn Jónsdóttir er ungur bóndi.
Ingibjörg Sæunn Jónsdóttir er ungur bóndi. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg býr í sveitinni og vinnur þar við búskapinn samhliða því að vera í fjarnámi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. „Við erum aðallega með kýr en líka um 100 kindur. Við ætlum að halda áfram með féð en það er ekki fyrirvinnan okkar og við kannski fækkum aðeins. Ég held að það sé óþarflega mikil svartsýni í umræðunni undanfarið um sauðfjárrækt, það er mikil umræða um þetta meðal bænda og það er alveg hugur í fólki.“

Veðrið lék við fjallmenn í síðustu viku.
Veðrið lék við fjallmenn í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Það má heyra á fjallmönnum að það er bjartsýni í garð sauðfjárræktarinnar. Ingvar fjallkóngur segir umræðuna ekki skemmtilega en hann sé viss um að eitthvað gott komi út úr þessu á endanum. „Það verður einhver fækkun á fé en ég veit ekki hvað hún verður mikil á okkar svæði. Hér eru ekki mörg stór sauðfjárbú heldur eru kindurnar hliðarbúgrein með kúabúi eða öðru og því hefur þetta ekki eins mikil áhrif hér og á öðrum svæðum,“ segir Ingvar.

Féð kom vænt og fallegt af fjalli.
Féð kom vænt og fallegt af fjalli. mbl.is/Árni Sæberg
Lengstu leitir á Flóa- og Skeiðamannaafrétti taka níu daga.
Lengstu leitir á Flóa- og Skeiðamannaafrétti taka níu daga. mbl.is/Árni Sæberg
Féð rann fallega áfram í góðviðrinu á miðvikudagskvöldið.
Féð rann fallega áfram í góðviðrinu á miðvikudagskvöldið. mbl.is/Árni Sæberg
Hó hó í fjallmönnum og jarm í kindum.
Hó hó í fjallmönnum og jarm í kindum. mbl.is/Árni Sæberg
Féð sem safnaðist þann daginn var rekið í hólf á …
Féð sem safnaðist þann daginn var rekið í hólf á vikrunum í Þjórsárdal að loknum degi. mbl.is/Árni Sæberg
Góðir smalahundar geta sparað smölum mörg sporin.
Góðir smalahundar geta sparað smölum mörg sporin. mbl.is/Árni Sæberg
Farið yfir daginn.
Farið yfir daginn. mbl.is/Árni Sæberg
Riðið af stað í kofa.
Riðið af stað í kofa. mbl.is/Árni Sæberg
Tekið af hestum og þeir settir í hólf yfir nóttina.
Tekið af hestum og þeir settir í hólf yfir nóttina. mbl.isÁrni Sæberg
Það eru allir hvíldinni fegnir enda búnir að vera að …
Það eru allir hvíldinni fegnir enda búnir að vera að í tólf og hálfan klukkutíma. mbl.is/Árni Sæberg
Járnað við kofann Klett.
Járnað við kofann Klett. mbl.is/Árni Sæberg
Fjallakofinn Klettur er í Þjórsárdal. Fjallmenn taka hraustlega til matar …
Fjallakofinn Klettur er í Þjórsárdal. Fjallmenn taka hraustlega til matar síns. mbl.is/Árni Sæberg
Stemningin í kofanum er góð, fjallmenn ræða saman um daginn …
Stemningin í kofanum er góð, fjallmenn ræða saman um daginn og næstu tvo smaladaga. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert