Hófust handa eftir morgunumferðina

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu gekk vel í morgun, að sögn Guðbrands Sigurðssonar aðalvarðstjóra. Í morgun hófust framkvæmdir við Kringlumýrarbraut en grafa þarf brautina í sundur vegna nýrrar vatnslagnar sem þarf að leggja. Búast má við miklum umferðartöfum næstu tvær vikurnar.

Guðbrandur segir að umferðin hafi gengið sinn vanagang í morgun þar sem verktakinn hafi ekki byrjað á verkinu fyrr en eftir morgunumferðina. Tafir séu hins vegar fyrirsjáanlegar héðan af, þar sem akreinum verður fækkað tímabundið um Kringlumýrarbraut á meðan framkvæmdum stendur.

Malbika Miklubraut á morgun

Annað kemur til á morgun sem er til þess fallið að tefja umferð. Unnið verður við malbikun á syðri akbraut Miklubrautar fyrir umferð í austur, milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar, fram eftir degi á morgun. Þær framkvæmdir hefjast klukkan níu í fyrramálið. „Lokað verður fyrir alla aðra umferð en sjúkrabíla og strætisvagna á þessum kafla. Umferð annarra bíla verður beint um hjáleið eftir Bústaðavegi og Snorrabraut,“ segir í tilkynningu.

Guðbrandur segir að lögreglan geti lítið annað gert en að vera sýnileg, á meðan þessu stendur. Gagnslaust sé að grípa inn í þar sem losun á einni umferðarstíflu leiði til þess að aðrir myndist annars staðar. Umferðin sé það mikil á álagstímum. „Við hrærum ekkert í umferðinni,“ segir hann.

Framkvæmdir hófust við Kringlumýrarbraut í morgun. Hér setja vinnumenn upp …
Framkvæmdir hófust við Kringlumýrarbraut í morgun. Hér setja vinnumenn upp skilti sem gefur lokun akbrauta til kynna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert