Enn hefur ekkert spurst til Arturs

Artur Jarmoszko. Ekkert hefur til hans spurst frá því 1. …
Artur Jarmoszko. Ekkert hefur til hans spurst frá því 1. mars.

Enn hefur ekkert spurst til Art­ur Jarmosz­ko, 26 ára, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir á fimmtudag. Síðast er vitað um ferðir Art­urs í miðborg Reykja­vík­ur rétt fyr­ir miðnætti 1. mars síðastliðins.

Elwira  Landowska, frænka hans, sagði í samtali við mbl.is nú í morgun að fjölskyldan sé vissulega áhyggjufull, en reyni þó að halda sinni rútínu. Tveir bræður Arturs eru einnig á Íslandi. „Þeir eru að reyna að láta áhyggjurnar ekki ná yfirhöndinni. Ég talaði við annan bróður hans í gær og hann sagðist bara hugsa jákvætt. Hann leyfði því ekki að hvarfla að sér að eitthvað hefði komið fyrir hann,“ segir Elwira. Sá bróðir hans sé þess fullviss að Artur hafi ekki skaðað sjálfan sig.

Tók sér frí úr vinnu nokkru áður en hann hvarf

Hún segir Artur hafa tekið sér frí úr vinnu nokkru áður en hann hvarf og því hafi vinnuveitandi ekki saknað hans, þá sé hann ekki í daglegu sambandi við fjölskyldu sína og því hafi hún heldur ekki strax haft áhyggjur þó að ekki næðist í hann.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haldið fjölskyldunni vel upplýstri um leitina að Artur að sögn Elviru. „Þeir fengu aðra fartölvuna hans um fimmleytið í gær og hafa ekki náð að klára að lesa úr henni,“ segir hún og kveður lögreglu hafa gert mikið af því að ræða við vini hans og fjölskyldu.

Þá séu allir vinir Arturs meðvitaðir um að hans sé saknað og eins hafi verið auglýst eftir honum á pólska fréttavefnum Icelandnews. „Við erum síðan með tvo eða þrjá hópa á Facebook sem í eru vinir Arturs og vinir vina hans og aðrir sem gætu kannast við hann. Þeir eru allir í sambandi og vita að hans er saknað.“

Art­ur er pólsk­ur en hef­ur verið bú­sett­ur á Íslandi um nokk­urt skeið. Hann er 186 sm hár og með græn augu og stutt, dökkt hár. Hann er tal­inn vera klædd­ur í svarta úlpu eða mittisjakka, blá­ar galla­bux­ur og hvíta striga­skó.

Þeir sem geta gefið upp­lýs­ing­ar um ferðir hans eru beðnir um að hafa sam­band við lög­regl­una í síma 444-1000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert