„Við höfum beðið nógu lengi“

Stúdentaráð Háskóla Íslands.
Stúdentaráð Háskóla Íslands. Ljósmynd/SHÍ

Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands krefst þess að Alþingi ljúki fyrstu umræðu um frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um námslán og námsstyrki á næstu dögum.

„Mikilvægt er að það sé gert, sama með hvaða hætti. Fjölgun þingdaga ætti ekki að vera fyrirstaða. Eitt stærsta hagsmunamál stúdenta eftir áralangt ákall þeirra er í húfi. Ótækt er að fresta umræðu frumvarpsins til haustsins, við höfum beðið nógu lengi,“ segir í tilkynningu frá stjórninni.

Þar segir einnig að hvimleitt sé að ákveðinn hluti þingmanna sjái sér ekki fært að hefja umræðuna og leita lausna.

„Á sumrin eru stúdentar ekki bundnir við lestur námsbóka og eru því í kjöraðstöðu til þess að kynna sér frumvarpið. Það er veigamikill þáttur sem stuðlar að því að þeir að geti komið sínum athugasemdum til nefnda. Því er mikilvægt að málið sé komið í nefndir fyrir sumarfrí. Þó svo að frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu er ekki þar með sagt að búið sé að samþykkja það. Sýnið samstöðu með stúdentum. Ekki einungis benda á vandamálin, leysið þau,“ segir í tilkynningunni.

Fyrr í morgun sendi félag stúdenta við Háskólann á Akureyri frá sér sams konar tilkynningu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert