„Við vorum í sjokki“

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Tvær ungar konur sem urðu vitni að handtöku á Laugavegi í júlí síðastliðnum sem varð að dómsmáli á hendur lögreglumanninum sem stýrði aðgerðum segjast hafa lenti í sjokki þegar þær sáu aðfarirnar. „Við höfðum miklar áhyggjur af greyið konunni sem var þarna ofurölvi,“ sagði önnur þeirra.

Báðar eru konurnar 24 ára gamlar. Önnur þeirra var á bíl og hafði því ekki bragðað áfengi. „Við vorum svona 10-15 metra frá lögreglubílnum og sáum að eitthvað var að gerast fyrir framan hann. Við héldum fyrst að þetta væri einhver róni með læti en sáum svo að þetta var ung kona sem gengur vinstra megin við bílinn. Næsta sem við sjáum er að henni er slegið í bekkinn og við vorum sjokkeraðar og töldum þetta ekki alveg í lagi. Við sáum hana svo dregna eftir jörðinni og borna inn í bíl,“ sagði kona.

Þá bætti hún við: „Og í stað þess að leggja hana í sætið var henni hent á gólfið og lendingin var ekki mjúk. Svo sá ég að lögreglumaður var mjög harkalegur við hana inni í bílnum og setti hnéð i gagnaugað á henni. Við vorum í sjokki og töluðum um þetta alla leiðina niður Laugaveginn.“

Vinkona hennar bar á svipaðan hátt. „Maður hefur oft séð eitthvað svona gerast í miðbænum en okkur brá óvenjumikið. Þetta var bara eins og dúkka, henni var fleygt til og frá og inn í bíl.“

Konurnar gátu hins vegar ekkert borið um orðaskipti milli konunnar og lögreglumannsins áður en að handtökunni kom.

Forsendur valdbeitingar fyrir hendi

Lögreglumaðurinn bar um það í morgun að ákvörðun um handtöku hefði ekki verið tekin fyrr en konan hrækti á hann. Beitt hefði verið viðurkenndri handtökuaðferð og hún gengið fumlaust fyrir sig. Hann sagðist ekki hafa misst stjórn á skapi sínu og síðar að hann hafi ekki haft neinn ásetning til að valda konunni líkamsmeiðingum eða tjóni af neinu tagi.

Hann sagði einnig að í ákæru væri í raun bara lýst handtöku, þó svo lýsingin sé full dramatísk. „Það er verið að lýsa valdbeitingu sem lögreglumönnum er heimilt að beita við vissar aðstæður og ég tel að forsendurnar hafi verið uppfylltar þarna.“

Meðal þess sem kom fram við skýrslutöku yfir lögreglumanninum var að hann honum fyndist það áhugavert að yfirstjórn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þótti mikilvægara að láta fréttastofu Ríkisútvarpsins vita að búið væri að leysa hann frá störfum en að láta hann sjálfan vita af því.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram og eftir hádegið koma fyrir dóminn læknar og þjálfarar sem kenna handtökuaðferðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert