Kortleggja á vandann hjá bændum

Víða eru mikil snjóþyngsli og á mörgum bæjum er klaki …
Víða eru mikil snjóþyngsli og á mörgum bæjum er klaki á túnum og því mikil hætta á kali. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Vetur konungur hefur ekki sleppt takinu á norðan- og austanverðu landinu. Víða eru mikil snjóþyngsli og á mörgum bæjum er klaki á túnum og því mikil hætta á kali. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur fundað um stöðuna með Bændasamtökunum, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Bjargráðasjóði og munu þessir aðilar fylgjast vel með framvindu mála. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Á fundinum var ákveðið að ráðast í kortlagningu á vandanum og verður þar m.a. skoðað í hvaða sveitum líklegt er að þetta vandamál muni koma upp og hvað það nái til margra bæja og túna.

„Ljóst er að á mörgum bæjum eru heybirgðir takmarkaðar en ótíðin á þessu vori kemur ofan í lélegan heyskap á síðasta sumri. Þá er stutt í að sauðburður hefjist og vandamál með hýsingu er yfirvofandi á mörgum bæjum þar sem hætt er við að erfitt verði að hleypa fé úr húsi vegna snjóþyngsla,“ segir á vef ráðuneytisins.

Rætt um að koma á fót föstum viðbragðshópi

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins býður bændum ráðgjöf án endurgjalds og hefur ráðgjafi verið á ferð um Norðurland. Meðal þess sem hann metur er hvernig best er hægt að endurvinna kalin tún og hvernig best sé að rækta annað land sem gæti gefið fóður fyrir næsta vetur.

Á fundinum var jafnframt rætt um að koma á fót föstum viðbragðshópi sem kæmi saman þegar að náttúruöflin byðu bændum birginn og ættu sæti í honum fulltrúar frá ráðuneyti, Bændasamtökunum, Bjargráðasjóði og öðrum þeim stofnunum sem að rétt þykir að kalla til leiks.

Mörg dæmi eru um að tún á Norðurlandi hafi verið undir svelli síðan í nóvember. Því er hætta á að kal leiki mörg tún illa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka