Fyrsta umræða um fjárlög á Alþingi

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið er hafin á Alþingi.
Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið er hafin á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár hófst á Alþingi í dag og er gert ráð fyrir því að hún standi fram á kvöld. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu og sagði að staða ríkisfjármála væri góð og horfur sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að rúmlega 30 milljarða króna afgangi af rekstri ríkissjóðs á næsta ári.

Árni sagði, stundum væri sagt að sterk bein þyrfti til að þola góða daga og það ætti ekki síst við í ríkisfjármálum. Hins vegar væri staða ríkissjóðs svo góð, að allar líkur séu á að hægt verði að lækka skatta á kjörtímabilinu án þess að það komi niður á ríkisrekstrinum.

Jón Bjarnason, þingmaður VG, sagði að frumvarpið væri nánast eins og vinnuplagg en þar væri hvorki gert ráð fyrir breytingum á verkaskiptingu ráðuneyta og mótvægisaðgerðirnar svonefndu væru ekki nákvæmlega útfærðar í frumvarpinu.

Árni sagði, að innlegg VG í fjárlagaumræðuna væri bara tuð og fjas um óvissu hér og þar en engin hugmyndafræði væri í gangi. Greinilega hefði ekkert breyst hjá flokknum þótt hann væri nú orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Alþingi.

Árni sagði, að Íslendingar byggju í markaðsþjóðfélagi og þess vegna ríkti óvissa um það hvernig hlutir þróist. Menn sem væru bundir í klafa skipulagshagkerfisins gætu auðvitað ekki hugsað út frá markaðshagkerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert