Fjármálaráðherra: Áframhaldandi góð afkoma á ríkissjóði

mbl.is/KG

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs árið 2008 verði 461,2 milljarðar kr., sem er 77,3 milljarða hækkun frá langtímaáætlun sem lögð var fram haustið 2006. Heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð rúmir 430 milljarðar, sem er hækkun um 48 milljarða frá áætlun þessa árs. Gangi áform frumvarpsins eftir verður tekjuafgangur af ríkissjóði í fimm ár samfellt og hefur aðhald ríkisfjármála verið talsvert umfram það sem áður var gert ráð fyrir.

„Þetta er talsvert lakari afkoma heldur en við teljum að verði árið 2007, en afkoma ársins 2007 er langt umfram það sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Og er raunverulega meira í takt við það sem var afkoma ársins 2006 í ríkisreikningum. [...] Þá er um að ræða áframhaldandi góða afkomu á ríkissjóði,“ sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Fram kom í máli fjármálaráðherra í dag að rekja megi breytinguna til hækkunar tekjuspár árið 2007 á grundvelli endurskoðaðra þjóðhagsforsendna. Einnig sé um að ræða aðeins meiri launa- og verðlagsbreytingar á næsta ári en gert var ráð fyrir í vorspá ráðuneytisins. Þá hækka vaxtatekjur ríkissjóðs vegna betri sjóðstöðu.

Hækkun útgjalda skýrist að mestu af stórauknum framkvæmdum til samgöngumála í samræmi við samgönguáætlun, vegna ákvarðana um flýtingu framkvæmda í tengslum við mótvægisaðgerðir og ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf. Almenn rekstrargjöld ríkissjóðs, þ.e. launagreiðslur, þjónustu- og vörukaup, hækka um 1,7% að raungildi frá áætlun þessa árs, þar af eru 0,7% vegna yfirtöku á verkefnum vegna brotthvarfs varnarliðsins.

Um 20 milljarðar fara í samgöngumál og tæpir 10 milljarðar fara í almannatryggingar og velferðarmál. Þá fara sjö milljarðar í heilbrigðismál og fjórir milljarðar í löggæslu- og öryggismál. Milli þrír og fjórir milljarðar fara í fræðslumál. Sex milljarðar fara í önnur útgjöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert