Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 30,8 milljarða tekjuafgangi 2008

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 er lagt fram með 30,8 milljarða tekjuafgangi, eða sem nemur 2,4% af vergri landsframleiðslu. Frá þessu greindi fjármálaráðherra í dag. Hann segir afkomuna vera mun betri en gert hafi verið ráð fyrir í langtímaáætlun sem lögð var fram síðasta haust.

Talsverður afgangur verður á ríkissjóði á næsta ári þrátt fyrir að áformað sé að ráðast í miklar samgöngubætur og mótvægisaðgerðir vegna lækkunar á aflamarki þorsks. Ráðherra segir stöðu ríkisfjármála vera sterka og áfram verði greiddar niður skuldir og staðan bætt á annan hátt.

Í langtímaáætlun síðasta haust var spáð 4,9 milljarða kr. tekjuhalla á næst ári en tekjuafkoman samkvæmt frumvarpinu er 35,7 milljörðum betri en áður hafði verið spáð.

Þá gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að hagvöxtur verði 0,7% árið 2007 og 1,2% á næsta ári. Þá er því spáð að það muni draga úr verðbólgu og að verðlag hækki um 3,3% frá 2007 til 2008 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert