Undirbúningur að umhverfismati vegna álvers í Reyðarfirði hafinn

Frá framkvæmdum við álverið í Reyðarfirði.
Frá framkvæmdum við álverið í Reyðarfirði. mbl.is/Steinunn

„Þetta breytir engu. Framkvæmdum verður haldið áfram samkvæmt áætlun,“ sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, um staðfestingu Hæstaréttar í dag á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að ógilda úrskurð umhverfisráðherra, sem staðfesti í apríl árið 2003 þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að 322 þúsund tonna álver Alcoa í Reyðarfirði þyrfti ekki að fara í umhverfismat.

„Við munum láta framkvæma mat á umhverfisáhrifum og höfum þegar hafið þá vinnu,“ sagði Tómas ennfremur. „Í samræmi við lögin um mat á umhverfisáhrifum létum við gera ítarlega samanburðarskýrslu og í henni liggur fyrir mikið af gögnum. Eftir dóm héraðsdóms (í janúar sl.) hófum við þessa vinnu með ráðgjöfum okkar og höfum því þegar lokið talsverðri undirbúningsvinnu. Við munum því við fyrsta tækifæri skila inn matinu sjálfu.“

Tómas segir að matið muni væntanlega liggja fyrir innan fárra vikna.

    Alcoa Fjarðaál sendi nú síðdegis frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

    Nýfallinn dómur Hæstaréttar staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að úrskurður umhverfisráðherra frá apríl 2003, sem staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar um að álver Alcoa Fjarðaáls þyrfti ekki að sæta nýju umhverfismati, skuli teljast ómerkur. Vegna þessa vill Alcoa Fjarðaál koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

    Allt frá því að undirbúningur fyrir starfsemi álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði hófst árið 2002 hefur fyrirtækið kappkostað að eiga náið samstarf við stjórnvöld og stofnanir hér á landi með það fyrir augum að tryggja að eðlilega og löglega sé staðið að öllum framkvæmdum. Alcoa Fjarðaál hefur m.a. lagt ríka áherslu á að afla og miðla til stjórnvalda ítarlegum upplýsingum um ætluð umhverfisáhrif álversins, enda er umhverfisvernd eitt af forgangsmálum fyrirtækisins.

    Dómur Hæstaréttar felur í sér að framkvæma verður nýtt mat á umhverfisáhrifum álvers Alcoa Fjarðaáls. Hafin er vinna á vegum fyrirtækisins við að undirbúa mat á umhverfisáhrifum en ekki var unnt að hefja framkvæmd matsins meðan málið var fyrir dómstólum. Alcoa Fjarðaál mun starfa náið með Skipulagsstofnun til að tryggja að eðlilega og löglega verði staðið að framkvæmdinni.

    Enda þótt dómur Hæstaréttar komi á óvart og valdi vonbrigðum, leggur Alcoa Fjarðaál áherslu á að starfa í einu og öllu í samræmi við lög og reglur, samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda og niðurstöðum dómstóla. Það er engum mikilvægara en fyrirtækinu sjálfu að óvissu um lögmæti framkvæmdanna verði eytt.

    Ítarlegar upplýsingar um umhverfisáhrif álvers Alcoa Fjarðaáls, sem voru staðfestar af sérfræðingum, lágu fyrir þegar Skipulagsstofnun tók sína ákvörðun. Fyrirtækið gerir því ekki ráð fyrir að nýtt mat á umhverfisáhrifum muni tefja framkvæmdir á Austurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert