750 ný störf skapast vegna álvers Alcoa

Fyrstu skóflustungur að Fjarðaáli, álveri Alcoa, voru teknar í gær á jörðinni Hrauni við Reyðarfjörð í blíðskaparveðri að viðstöddum boðsgestum. Miklar öryggisráðstafanir voru gerðar á staðnum og var gestum ekið í rútum frá Reyðarfirði. Friðsöm mótmæli voru við afleggjarann að álverslóðinni, sem skipulögð voru af Náttúruvaktinni, baráttuhópi fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði.

Við athöfnina sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, að merkum áfanga væri náð og dagurinn í gær væri stór í sögu Austfjarða og landsins alls. Álverið myndi ekki aðeins skapa tekjur á Austfjörðum heldur fyrir þjóðina alla. Á framkvæmdatíma til ársins 2007 munu skapast um 2.300 ársverk og allt að 750 ný störf, þar af um 450 við álverið. Vegna framkvæmdanna er reiknað með að landsframleiðsla aukist á árunum 2003 til 2006 um 3% og árlegur hagvöxtur á tímabilinu verði 1,5% meiri en ella.

Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sagði við athöfnina að ekki aðeins sveitarfélagið þyrfti að standa sig í uppbyggingu þjónustu á svæðinu heldur ríkisvaldið einnig, s.s. í heilbrigðis- og menntamálum og löggæslu. Til þess þyrfti aukna fjármuni og aukna starfsemi. Benti hann á að tekjuskattur ríkisins af starfsmönnum við byggingu álversins yrði um 4 milljarðar króna. Með þeim fjármunum mætti fjármagna opinbera þjónustu á svæðinu.

Valgerður Sverrisdóttir sagði við Morgunblaðið, spurð um viðbrögð við orðum Guðmundar, að þessi vinna væri þegar hafin innan samstarfsnefndar stjórnvalda, heimamanna, Alcoa og Bechtel. Mikilvægt væri að ræða um þessar aðstæður og bregðast á einhvern hátt við. Átti hún ekki von á öðru en að ríkisstjórnin myndi í fjárlagagerð sinni taka tillit til aðstæðna á Austurlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert