Verksmiðja Alcoa hlýtur umhverfisverðlaun

Ein af verksmiðjum alþjóðlega álfyrirtækisins Alcoa hlaut nýlega æðstu viðurkenningu sem sem yfirvöld Iowa-ríkis í Bandaríkjunum veita fyrir árangur á sviði umhverfismála, samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

Í fréttatilkynningu frá Alcoa segir að á undanförnum 10 árum hafi félagið varið alls 70 milljónum bandaríkjadollara til að draga úr mengun í tengslum við starfsemi verksmiðjunnar, sem er nærri bænum Davenport við ána Mississippi og framleiðir unnar álvörur af ýmsu tagi.

Losun mengandi lofttegunda vegna starfsemi verksmiðjunnar hafi í heild minnkað um 94% á undanförnum áratug og vatnsþörf verksmiðjunnar dregist saman um 97% á sama tímabili. Alcoa hafi í samstarfi við umhverfisstofnun Bandaríkjanna gert viðamikla úttekt á verksmiðjunni í því skyni að greina hugsanleg vandamál og tryggja að framleiðslan uppfylli gildandi reglur og geti mætt kröfum framtíðarinnar.

Verksmiðjan í Iowa hefur fengið vottun samkvæmt ISO 14001 gæðastaðli sem staðfestir að umhverfisstefna hennar uppfyllir strangar kröfur og mun tryggja öryggi nærliggjandi byggðarlaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert