Alcoa fjárfestir í álveri og orkuveri

Alcoa hefur ekki áform um að fjárfesta í Kárahnjúkavirkjun eða starfrækja hana þegar til kemur, segir Jake Siewert, aðaltalsmaður Alcoa. Tilefni fyrirspurnar Morgunblaðsins þessa efnis eru nýlegar fréttir um að Alcoa hafi undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 26% hlut í fyrirtækinu Alba í Barein, sem aðallega starfrækir álver þar í landi. Hefur Alcoa til fjölda ára útvegað álveri Alba hráefni til álframleiðslunnar en raforkan kemur hins vegar frá fyrirtæki í eigu Alba.

Í fréttaskýringu AP-fréttastofunnar segir að þessi fjárfesting sé til marks um þá viðleitni Alcoa að draga sem mest úr framleiðslukostnaði og hafa meiri stjórn á orkuöflun til álvera sinna.

Jake Siewert segir að fjárfestingin í Barein eigi það sammerkt með verkefninu á Íslandi að vera hluti af þeirri áætlun og markmiðum Alcoa að auka fjölbreytni í sinni framleiðslu og draga sem mest úr heildarkostnaðinum. Aldrei hafi þó staðið til að taka þátt í byggingu og rekstri Kárahnjúkavirkjunar. Verkefnið á Íslandi miðist eingöngu við að starfrækja álverið í Reyðarfirði.

Verjast verðsveiflum með rekstri um allan heim

Í fréttaskýringu AP segir að álfyrirtækin séu að reyna að verjast miklum sveiflum í orkuverði með því að starfrækja álver sem víðast um heiminn. Hefur AP það eftir talsmanni Alcoa, Kevin Lowery, að fyrirtækið sé að tryggja sig fyrir óvæntum rekstrarsveiflum með þessum hætti. Álver Alcoa keppi jafnt innbyrðis sem og við álver annarra fyrirtækja. Ljóst sé að því lægri sem orkukostnaðurinn sé, þeim mun ódýrara sé að framleiða ál. Hefur Alcoa að sögn AP verið að auka við eignarhluti sína í álverum og verksmiðjum í S-Ameríku og haft áform uppi um stækkun álvers í Ástralíu.

AP segir Alcoa ekki vera eina fyrirtækið sem vilji draga úr orkukostnaði til álvera. Greint er frá nýlegum kaupum Alcan, móðurfyrirtækis álversins í Straumsvík, á franska álframleiðandanum Pechiney og talið að sú fjárfesting geti þýtt árlegan sparnað fyrir Alcan upp á 250 milljónir dollara. Einnig er bent á að Alcan framleiði sjálft um 62% af þeirri raforku sem fyrirtækið þurfi á að halda. Fer sú framleiðsla aðallega fram í Kanada.

Kaup Alcan á Pechiney hafa vakið nokkra athygli, m.a. hér á landi þar sem vitað er að Alcoa hefur átt í nokkru samstarfi við Pechiney og m.a. notast við kertækni frá franska fyrirtækinu. Spurður hvort kaupin hafi ekki áhrif á Alcoa segir Jake Siewert það varla verða með beinum hætti, þó að uppstokkun geti orðið á álmarkaðnum í heild sinni. Segist hann ekki eiga von á breytingum á samstarfi sem Alcoa hafi átt við Pechiney í Kanada og áfram verði notast við framleiðslutækni frá fyrirtækinu.

Haft er eftir sérfræðingum á álmarkaðnum að leitin að ódýrari orku muni leiða álfyrirtækin í aukna samkeppni í öllum heimsálfum. "Í áliðnaðinum er það orðið meginmarkmið að verða sér úti um aðgang að orkunni," segir Tony Lesiak, sérfræðingur hjá HSBC-bankanum við AP-fréttastofuna. Greint er frá fjárfestingum Alcoa og Alcan á Íslandi og haft eftir Robin King, talsmanni Aluminium Association, að um allan heim sé leitað að hagstæðu orkuverði og öruggri orkuöflun. "Fyrirtækin eru að leita að hinu rétta umhverfi fyrir hagkvæman iðnrekstur, líkt og á Íslandi," segir King.

Framleiða meiri raforku en Landsvirkjun

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, tekur undir með starfsbróður sínum hjá Alcoa og segir engin áform hafa verið uppi um að álfyrirtækið tæki þátt í smíði eða rekstri Kárahnjúkavirkjunar.

"Hins vegar höfum við vitað það frá upphafi að bæði Alcoa og Alcan eru hvort tveggja um sig margfalt stærri raforkuframleiðendur en Landsvirkjun. Það er vel þekkt fyrirbrigði að raforkuver séu reist fyrir álver af sama aðilanum. Báðir samningsaðilar hér vissu af þessu en þetta var aldrei inni í myndinni vegna Kárahnjúkavirkjunar," segir Þorsteinn.

Hann bendir á að ný raforkulög geri ráð fyrir því að menn geti reist orkuver fyrir skilgreinda þörf. Hver sem er geti farið út í framleiðslu á raforku. Þorsteinn segir að í gegnum tíðina hafi margvíslegar leiðir verið ræddar varðandi uppbyggingu og fjármögnun virkjana hér á landi. Þannig hafi það verið til skoðunar á sínum tíma, áður en Norsk Hydro og síðar Alcoa komu til sögunnar vegna álvers í Reyðarfirði, að stofna sérstakt félag um orkuframleiðsluna á Austurlandi. Ekkert hafi orðið úr því og Landsvirkjun tekið að sér orkuöflunina við Kárahnjúka.

bjb@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert