Valgerður: Heillaspor fyrir þjóðina

Alain Belda, forstjóri Alcoa og Valgerður Sverrisdóttir ræðast við eftir …
Alain Belda, forstjóri Alcoa og Valgerður Sverrisdóttir ræðast við eftir að skrifað hafði verið undir samninga í íþróttahúsinu á Reyðarfirði. mbl.is/fjardarbyggd.is

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sagði eftir að skrifað hafði verið undir alla samninga um álver og virkjun í íþróttahúsinu á Reyðarfirði í dag að nú væru aðrir tímar á Austurlandi en þegar hún tilkynnti á sama stað, fyrir um ári, að fresta yrði verkefninu. „Það er bjargföst trú mín að nú hafi verið stígið heillaspor fyrir þjóðina í heild. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu kalla á viðsnúning á Austurlandi. Í fyrsta sinn í langan tíma stefnir í að byggðaþróun verði snúið við," sagði iðnaðarráðherra.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, vitnaði í athafnaskáldið Einar Ben. í lok ræðu sinnar og sagði:

"Of lengi í örbirgð stóð
einangruð, stjórnlaus þjóð,
kuguð og köld.
Einokun opni hramm.
Iðnaður, verslunfram!
Fram! Temdu fossins gamm,
framfara öld.

Geir H. Haarde, fjármálráðherra, fagnaði þessum tímamótum i sínu ávarpi, og lýsti ánægju með þau áhrif sem verkefnið myndi hafa á íslenskt efnahagslíf.

Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, lýsti yfir ánægju með að 20 ára bið væri á enda, tímar framfara væru runnir upp og því væri þetta fagnaðarfundur í dag. Oft hafi menn orðið fyrir vonbrigðum í þessari baráttu og nú væru menn að uppskera. „Nú skín sólin á okkur,“ sagði Guðmundur og bætti við að til þess að Austfirðingar stæðu undir þeirri ábyrgð, yrðu menn að snúa bökum saman og leggja af allan hrepparíg.

Þakkaði hann öllum sem veittu málinu brautargengi og bað fundarmenn um að klappa vel fyrir þeim öllum, sérstaklega þakkaði hann þó iðnaðarráðherra, sem hefði staðið sem klettur í málinu, þó oft hefði hún orðið fyrir ósanngjörnum árásum vegna málsins.

Jafnframt þakkaði Guðmundur Alcoamönnum fyrir hröð og markviss vinnubrögð, nú væru tímar samninga liðnir og uppbygging hæfist á fullu. Væri hann þess fullviss að saman myndu Austfirðingar og Alcoa byggja upp sterkt samfélag á Austurlandi. Hann afhenti Alain Belda gjöf frá Fjarðabyggð, stein frá borgfirska fyrirtækinu Álfasteini. Lauk bæjarstjóri ræðu sinni með því að skora á Austfirðinga og sagði: „Sýnum nú hvað í okkur býr!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert