Mikil hátíðarhöld fyrirhuguð á Reyðarfirði

Alain J.P. Belda, aðalforstjóri Alcoa, mun á morgun afhjúpa skilti …
Alain J.P. Belda, aðalforstjóri Alcoa, mun á morgun afhjúpa skilti þar sem álverið á að rísa. Hér á myndinni, sem tekin var í dag, er einn forvitinn að kíkja undir dúkinn sem hylur skiltið. mbl.is/RAX

Í tilefni þess að skrifað verður undir samninga um byggingu 322.000 tonna álvers Alcoa í Reyðarfirði á morgun mun Alain J.P. Belda, aðalforstjóri Alcoa, afhjúpa skilti þar sem álverið á að rísa. Mikil hátíðarhöld eru fyrirhuguð á Reyðarfirði í tilefni dagsins og er búist við fjölmenni á Reyðarfjörð. Þar verður gestum og gangandi m.a. boðið upp á risaköku fyrir 1.500 manns. Smári Geirsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, mun stýra hátíðinni og sagði hann að dagurinn yrði stærsti dagur í atvinnusögu Austurlands.

Athöfnin hefst kl. 14 í íþróttahúsi Reyðarfjarðar. Undir samningana þar rita Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Alain J.P. Belda, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Michael Baltzell, formaður samninganefndar Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Eftir undirritun samninga verður öllum boðið upp á veitingar og síðan farið á staðinn þar sem álverið mun rísa og skiltið afhjúpað.

Framkvæmdir vegna byggingar álversins munu hefjast haustið 2004. Álverið mun hefja framleiðslu fyrri hluta árs 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert