Stefnt að lokasamkomulagi um eða eftir áramót

Formlegt samstarf Landsvirkjunar, Alcoa og ríkisstjórnar Íslands hófst með undirritun viljayfirlýsingar í gærmorgun. Arnór Gísli Ólafsson varð var við að bjartsýni gætir um að lokasamkomulag takist innan fárra mánaða og af orðum aðstoðarforsjóra Alcoa mátti ráða að ekkert hik væri þar á bæ.

Alcoa mun reisa 295.000 tonna álver á Reyðarfirði og Landsvirkjun mun ráðast í að reisa Kárahnjúkavirkjun með uppsettu afli allt að 630 megavöttum og er miðað við að hægt verði að afhenda nýju álveri rafmagn snemma á árinu 2007 eða jafnvel fyrr. Undirbúningur virkjunarframkvæmda Landsvirkjunar hefst strax í sumar og haust en Alcoa mun bera hluta af þeirri fjárhagsáhættu sem fylgir undirbúningsframkvæmdum.

Stjórnendur Alcoa stefna að því að leggja verkefnið fyrir stjórn félagsins til samþykktar eigi síðar en í janúar á næsta ári. Þá stefnir Landsvirkjun að því að leggja raforkusamning fyrir stjórn félagsins eigi síðar en í desemberlok í ár.

Minni mengun en áður var gert ráð fyrir

Þetta er meðal helstu atriða sem er að finna í viljayfirlýsingu um mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni sem tekur til byggingar álvers á Austurlandi en Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, G. John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu yfirlýsinguna í gærmorgun. Athygli er vakin á því að viljayfirlýsinguna í heild má lesa á mbl.is.

Í ræðu iðnaðarráðherra kom fram að álverið sé nokkru minna en áður hafði verið gert ráð fyrir í tengslum við áform Reyðaráls sem þýði að minni mengun verði af verinu auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir rafskautaverksmiðju. Stefnt sé að því að reisa Kárahnjúkavirkjun en ekki sé útlit fyrir að flytja þurfi raforku frá Kröflusvæðinu. "Í stórum dráttum er gert ráð fyrir því að í nóvembermánuði eða við lok hans liggi fyrir samningar milli aðila, þ.e. fjárfestingarsamningur, lóða- og hafnarsamningur þannig að hægt verði að leggja fyrir Alþingi frumvarp til heimildarlaga sem væntanlega yrði afgreitt upp úr áramótum. En Alcoa gerir ráð fyrir að taka lokaákvörðun um þetta verkefni í janúar."

Samstarfi við Norsk Hydro slitið

Valgerður segir að með undirritun viljayfirlýsingar hafi samningsstarfi við Norsk Hydro verið slitið. En eins og fram hafi komið hafi átt sér stað viðræður milli aðila um að Alcoa keypti Reyðarál en þau mál séu þó enn ekki til lykta leidd en vonast sé til að það takist innan tíðar. Þá segir ráðherra að mikilvægt sé að bæði Alcoa og Landsvirkjun styðji áform stjórnvalda um hugsanlegt verndarsvæði norðan Vatnajökuls.

"Þetta er mikilvægur áfangi sem við höfum náð þó að við gerum okkur öll grein fyrir því að málið sé ekki í höfn. En hann er engu að síður mikilvægur og þá ekki síst vegna þess að farið verður í framkvæmdir á svæðinu strax í sumar og það sýnir hug manna til verksins. Og áhugi Alcoa á því að vinna hratt fer mjög vel saman við vilja stjórnvalda að gera einmitt slíkt hið sama."

Hefur fulla trú á að af álversframkvæmdunum verði

Í ræðu G. John Pizzey, aðstoðarforstjóra Alcoa, kom fram að vinna vegna fyrirhugaðs verkefnis hefði gengið mjög hratt fyrir sig og væri nú komin á það stig að stjórnendur Alcoa hefðu fulla trú á því að af framkvæmdunum yrði þó að eftir væri að binda ýmsa enda.

"Við munum reisa álbræðslu hér á landi sem við hjá Alcoa teljum okkur geta verið stolt af. Þegar við komum til Íslands, raunar fyrir ekki svo löngu, og kynntum okkur málin komumst við að því að hér væri hægt að reisa álbræðslu í hæsta gæðaflokki, bæði hvað snerti framleiðslu og umhverfissjónarmið. Og raunar þau ströngustu umhverfissjónarmið sem okkur er kunnugt um en þau falla þó vel að okkar markmiðum. Við vissum að þarna vorum við með verkefni í höndunum sem myndi verða að veruleika. Við munum byggja mjög hagkvæma og mjög umhverfisvæna álbræðslu, bræðslu sem uppfyllir öll umhverfisskilyrði sem hægt er að hugsa sér. Ég hlakka til þess að taka þátt í því að ganga frá endanlegum samningum seint á þessu ári eða snemma á því næsta," sagði Pizzey.

Greinilegt að hugur fylgir máli

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að þeim sem hlustað hefðu á þær ræður, sem fluttar voru við undirritunina, blandaðist ekki hugur um að hér fylgdi hugur máli af hálfu þess fyrirtækis sem Landsvirkjun mundi semja við. Þetta væri stærsta fyrirtækið í sinni grein og í því fælist gífurlegt öryggi fyrir Landsvirkjun að eiga viðskipti við slíkt fyrirtæki. "Við höfum fundið fyrir því að fulltrúar fyrirtækisins vilja vinna fljótt og vel og stjórn þess hefur gefið ákveðin og góð fyrirheit.

Það sem mestu máli skiptir á þessari stund er að við höfum þegar gert samning um að skipta á milli okkar kostnaði vegna framkvæmda sem nauðsynlegt er að fara í nú í sumar og á þessu ári til þess að undirbúa hinar almennu framkvæmdir vegna virkjunarinnar. Þarna er um verulega upphæð að ræða og af henni ætlar Alcoa að greiða 450 milljónir en fá síðan endurgreitt þegar ráðist verður í aðalframkvæmdirnar."

arnorg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert