Alcoa fær endurgreiðslu ef nýr aðili kemur að verkinu

Bandaríska álfyrirtækið Alcoa mun fá hluta sinn í kostnaði vegna þáttöku í undirbúningsframkvæmdum vegna Kárahnjúkavirkjunar í sumar endurgreiddan þegar farið verður í aðalframkvæmdir við virkjunina. Fyrirtækið mun hins vegar ekki fá þennan hluta sinn endurgreiddan, verði ekki af byggingu álvers fyrirtækisins í Reyðarfirði, nema nýr aðili komi að verkinu. Þetta kom fram í máli Friðrisk Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar á blaðamannafundi í morgun.

Alcoa mun greiða 75% af kostnaði við 600 milljóna króna undirbúningsframkvæmdir í sumar vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar samkvæmt samkomulagi við Landsvirkjun um skiptingu kostnaðar sem stjórn Landsvirkjunar samþykkti á fundi sínum í gær og Friðrik Sophusson undirritaði í dag. Alcoa skuldbindur sig því til að greiða 450 milljónir af kostnaðinum og Landsvirkjun 150 milljónir króna. Framkvæmdirnar sem um ræðir eru lagning vegar frá Laugarfelli að fyrirhuguðu Hálslóni við Kárahnjúka, smíði bráðabirgðabrúar yfir Jökulsá á Dal, einnig nefnd Jökulsá á Brú, og lagning rafmagnskapals að vinnusvæði við Kárahnjúka. Viljayfirlýsingin í heild
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert