Aðalforstjóri Alcoa væntanlegur til landsins í dag

Aðalforstjóri og stjórnarformaður bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, Alain J.P. Belda, er væntanlegur í stutta heimsókn til Íslands í dag ásamt fylgdarliði. Gert er ráð fyrir að forstjórinn hitti m.a. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra að máli og kanni einnig staðhætti í Reyðarfirði þar sem fyrirtækið er með til athugunar að reisa álver. Samkvæmt viðræðuáætlun, sem undirrituð var 23. maí síðastliðinn, ætlar Alcoa sér að hafa lokið hagkvæmniathugun fyrir 18. júlí og þá ræðst hvort formlegar viðræður munu hefjast við íslensk stjórnvöld.

Alain J.P. Belda hefur verið aðalforstjóri Alcoa í rúm tvö ár. Tók hann við af Paul O'Neill, núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna. Belda er 58 ára gamall, fæddur í borginni Meknes í frönsku Marokkó en er með brasilískan ríkisborgararétt. Hann er menntaður í Kanada og Brasilíu og hóf fyrst störf hjá Alcoa í Brasilíu árið 1969. Framan af gegndi hann margvíslegum störfum á fjármála- og skipulagssviði en árið 1979 varð hann forstjóri Alcoa Aluminio í Brasilíu. Þremur árum síðar var hann svo kosinn varaforstjóri móðurfyrirtækisins Alcoa, með aðsetur í höfuðstöðvunum í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Árið 1995 varð hann varastjórnarformaður og síðar forstjóri og framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Alcoa, þar til hann tók við af Paul O'Neill. Auk starfa sinna fyrir Alcoa situr hann í stjórnum fjármálafyrirtækisins Citigroup, vísinda- og rannsóknafyrirtækisins DuPont og bílaframleiðandans Ford.

Hyggjast uppfylla allar kröfur alþjóðlegs umhverfisstaðals

Samkvæmt upplýsingum frá KOM, sem annast kynningarmál Alcoa hér á landi, er Belda sagður umhverfisverndarsinnaður og vilji þannig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá álverksmiðjum Alcoa, sem eru um 350 í 38 löndum, um 25% fyrir árið 2010 og draga úr losun urðaðra spilliefna í jörðu um 50% fyrir 2007. Þá átti hann frumkvæði að nýrri umhverfisstefnu Alcoa en samkvæmt henni ætlar fyrirtækið að vera búið að uppfylla allar kröfur alþjóðlegs umhverfisstaðals fyrir árið 2005 í öllum sínum verksmiðjum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert