Verið að flýta ákvarðanatöku um álverið í Reyðarfirði

„Með þessu samkomulagi við Alcoa eru menn fyrst og fremst að skuldbinda sig til að taka ákvörðun um hvort að byggingu álvers í Reyðarfirði verður eða ekki fyrir 18. júlí nk. Það er ekki búið að ákveða að fara af stað með sumarframkvæmdirnar í sumar. Það verður að bíða þar til 18. júlí þegar endanleg ákvörðun Alcoa liggur fyrir," sagði Finnur Ingólfsson, seðlabankastjóri og formaður viðræðunefndar, sem iðnaðarráðherra skipaði nýlega í stóriðjumálum.

Finnur sagði, að í raun væri verið að flýta ákvarðanatökunni um álverið í Reyðarfirði. Samkvæmt gamla samkomulaginu milli Norsk Hydro, Landsvirkjunar og íslenskra stjórnvalda átti að taka endanlega ákvörðun um álverið í september nk. Þannig væri verið að færa fram endanlega ákvörðun um álver í Reyðarfirði með þessum samningi við Alcoa.

Finnur sagði að ef Alcoa ákveður að fara út í verkefnið, vonist menn til að hægt verið að hefja framkvæmdir á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. „Ef ekkert óeðlilegt kemur upp í þessu skoðunarferli fram til 18. júlí er ljóst að þeir ætla sér út í þetta verkefni. En samningar eru ekki í höfn fyrr en allt er undirritað, en það ríkir óneitanlega bjartsýni eftir síðustu fundi með forsvarsmönnum Alcoa," sagði Finnur.

Alcoa með starfsemi í 38 löndum

Alcoa er stærsta álfyrirtæki í heimi með árlega framleiðslugetu upp á 3,2 milljónir tonna af áli. Fyrirtækið var stofnað í Pittsburgh í Bandaríkjunum um miðjan níunda áratug 19. aldar og hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Höfuðstöðvarnar eru í Pittsburgh í Pennsylvaníuríki. Alcoa er með 350 verksmiðjur í 38 löndum, m.a. á nokkrum stöðum í Evrópu, og hjá fyrirtækinu starfa um 129 þúsund manns. Tekjur Alcoa á síðasta ári námu 23 milljörðum Bandaríkjadala eða um 2.300 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert