Vegagerð og raflögn við Kárahnjúka í sumar, náist samningar

Frá Kárahnjúkum.
Frá Kárahnjúkum.

Gert er ráð fyrir því að Landsvirkjun ráðist í undirbúningsframkvæmdir fyrir Kárahnjúkavirkjun í sumar, ef niðurstaða í könnunarviðræðum Alcoa og íslenskra stjórnvalda verður jákvæð og samkomulag um hlutdeild kostnaðar næst við Alcoa. Um er að ræða framkvæmdir við að skapa aðstöðu fyrir virkjunarframkvæmdir, svo sem vegagerð, lagning rafmagns og vatns og bygging vinnubúða.

Að sögn Þorsteins Hilmarssonar upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar liggur ekki fyrir hvað þessar framkvæmdir kosta. Í fyrri áætlunum sem tengdust álversáformum Norsk Hydro var gert ráð fyrir að undirbúningsframkvæmdir í sumar myndu kosta um 800 milljónir en ljóst sé að vegna skemmri tíma verði framkvæmdirnar í sumar umfangsminni ef þeim verður. Ekki er heldur ljóst hvenær þessar framkvæmdir verða boðnar út. Þorsteinn sagði að tíminn sé dýrmætur og sumarið stutt og því sé hugsanlegt að þær yrðu boðnar út með fyrirvara fyrir 18. júlí en þann dag á að liggja fyrir ákvörðun Alcoa og stjórnvalda hvort haldið verði áfram með undirbúning álvers í Reyðarfirði og skrifað undir formlega yfirlýsingu um samningaviðræður. Þorsteinn sagðist hins vegar ekki gera ráð fyrir því að undirbúningur fyrir hinar eiginlegu virkjanaframkvæmdir, svo sem ganga- og stíflugerð, hæfust í haust. Þorsteinn tók skýrt fram að þetta væri allt háð því, að Alcoa taki á sig kostnað af framkvæmdunum og því alls óvíst að nokkrar framkvæmdir verði í sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert