Leitum ætíð að nýjum tækifærum

Talsmaður bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, sem er meðal þeirra fyrirtækja sem íslensk stjórnvöld vonast eftir samstarfi við um stóriðju á Austurlandi, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið sé ætíð að leita að nýjum tækifærum í álframleiðslu í heiminum en spurt var hvort Alcoa hefði áhuga á að taka þátt í uppbyggingu álvers á Íslandi.

Jake Siewert, aðstoðarforstjóri upplýsingamála hjá Alcoa, staðfesti einnig í samtali við blaðið að fulltrúi íslenskra stjórnvalda hefði nýlega sett sig í samband við fyrirtækið og lýst yfir áhuga á að fá Alcoa til viðræðna um þátttöku í stóriðjuverkefni á Íslandi.

Siewert vildi ekkert segja til um viðbrögð Alcoa við þessu erindi stjórnvalda. Fyrirtækið myndi væntanlega fá frekari upplýsingar og fylgjast með framvindu mála hér á landi. Hann sagði, aðspurður, að talsmenn Norsk Hydro hefðu ekki verið í viðræðum við Alcoa um þátttöku í Reyðarálsverkefninu.

Með starfsemi í 38 löndum

Alcoa er stærsta álfyrirtæki í heimi með árlega framleiðslugetu upp á 3,2 milljónir tonna af áli. Fyrirtækið var stofnað í Pittsburgh í Bandaríkjunum um miðjan níunda áratug 19. aldar og hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Höfuðstöðvarnar eru í Pittsburgh í Pennsylvaníu-ríki. Alcoa er með 350 verksmiðjur í 38 löndum, m.a. á nokkrum stöðum í Evrópu, og hjá fyrirtækinu starfa um 129 þúsund manns. Tekjur Alcoa á síðasta ári námu 23 milljörðum Bandaríkjadala eða um 2.300 milljörðum íslenskra króna.

Að sögn Jake Siewerts er Alcoa stöðugt að vinna að nýjum verkefnum í áliðnaði. Sem dæmi um það nefndi hann nýlegan áhuga stjórnvalda í Kanada og Finnlandi á samstarfi við fyrirtækið um byggingu álverksmiðja í þeim löndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert