Málinu er síður en svo lokið

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segist ætla að halda áfram að vera bjartsýn á áframhaldandi undirbúning virkjana og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi þrátt fyrir úrskurð Skipulagsstofnunar. Hún segist hins vegar telja að ef umhverfisráðherra fellst á úrskurð Skipulagsstofnunar geti hún sem iðnaðarráðherra ekki gefið Landsvirkjun heimild til virkjunarframkvæmda.

„Málinu er síður en svo lokið þó þetta sé engu að síður ákveðinn vendipunktur. Við höfðum alltaf gert ráð fyrir því í okkar tímaáætlunum að þetta mál yrði kært á hvorn veginn sem það færi. Að því leyti til þarf þetta ekki að breyta tímaáætlunum í sambandi við verkefnið," segir hún.

Valgerður segist hafa átt von á að Skipulagsstofnun féllist á framkvæmdina með skilyrðum.

Hún segir að sér sýnist að Skipulagsstofnun treysti sér ekki til að fullyrða um jákvæða þætti framkvæmdanna, sem hún segist þó telja að séu augljósir. ,,Það segir í úrskurðinum að það sé talsverð óvissa um áhrif framkvæmdanna á byggð og atvinnulíf á Austurlandi.

Þarna hefði ég talið að væri hægt að kveða miklu sterkar að orði en í ljósi þess að stofnunin treystir sér ekki til þess, þá verða jákvæðu þættirnir veikari en þeir neikvæðu, sem vissulega eru líka til staðar," segir Valgerður.

Bæta má úr upplýsingaskorti framkvæmdunum í hag

Iðnaðarráðherra bendir einnig á að samkvæmt lögum beri umhverfisráðherra að afla upplýsinga frá ákveðnum aðilum, s.s. Landsvirkjun, áður en fullnaðarúrskurður sé kveðinn upp.

,,Þar sem rök Skipulagsstofnunar eru meðal annars þau að það skorti upplýsingar, ekki síst í sambandi við efnahagsþátt málsins, tel ég nokkuð víst að bæta megi úr því. Það hefur ýmislegt verið að skýrast á síðustu vikum sem varðar þann þátt málsins framkvæmdum í hag. Þess vegna vil ég halda áfram að vera bjartsýn," segir Valgerður.

Skv. 10. grein Orkulaga þarf leyfi Alþingis til að reisa og reka raforkuver, stærra en 2000 kW. ,,Þetta er leyfi sem Alþingi getur í sjálfu sér tekið afstöðu til, án tillits til úrskurðar umhverfisráðherra og jafnvel áður en hann fellur, en það er ljóst að leyfi ráðherra samkvæmt Landsvirkjunarlögunum verður ekki gefið út nema það sé í samræmi við niðurstöðu umhverfisráðherra," segir Valgerður.

Hún segist aðspurð túlka lögin svo að ef umhverfisráðherra fallist á úrskurð Skipulagsstofnunar geti hún sem iðnaðarráðherra ekki gefið út heimild fyrir framkvæmdinni.

Bendir hún á 16. grein laganna í því sambandi þar sem segir að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans.

Fjárfestar meti verkefnið í ljósi arðsemi þess

Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sagði í Morgunblaðinu í gær að ljóst væri að ein af grunnforsendum fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að fjárfestingu í álveri við Reyðarfjörð væri brostin með úrskurði Skipulagstofnunar. Aðspurð um þetta segir Valgerður lífeyrissjóðina hljóta að meta þetta verkefni út frá efnahagsþættinum og um hversu arðbæra fjárfestingu sé að ræða. ,,Ég hef tekið eftir því að aðrir fjárfestar hafa tjáð sig miklu jákvæðar og legg áherslu á að þessu máli er alls ekki lokið, en kannski er ekki óeðlilegt að fyrstu viðbrögð geti orðið þessi, þegar menn fá úrskurð sem þeir hafa ekki átt von á og verður bylt við. Ég trúi því að þeir muni meta þetta fyrst og fremst út frá arðsemi verkefnisins."

Úrskurður umhverfis- ráðherra endanlegur

Iðnaðarráðherra benti einnig á að sá misskilningur virtist uppi að heimilt væri að kæra úrskurð umhverfisráðherra til dómstóla. "Svo er ekki. Hins vegar getur verið að efnismeðferðin væri kæranleg ef hún er ekki lögum samkvæm en ekki úrskurðurinn sem slíkur, hann er endanlegur," segir Valgerður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert