Ekki sammála Össuri

"Ég er ekki sáttur við úrskurð Skipulagsstofnunar. Hann kemur mér á óvart, ég bjóst frekar við því að þeir myndu heimila virkjunina með einhverjum skilyrðum," segir Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar á Austurlandi.

Hann segir þó að úrskurðurinn sé einungis hluti af löngu ferli. Skipulagsstofnun sé búin að ljúka sínu verki og að nú sé það umhverfisráðherra sem eigi síðasta orðið.

Álit Einars samræmist ekki skoðunum formanns Samfylkingarinnar og segir Einar að það sé ákveðið ábyrgðarleysi að fagna þessum úrskurði. Einkum vegna þess að þetta sé afar stór framkvæmd sem myndi hafa mjög mikið efnahagslegt gildi fyrir þjóðina og auk þess sé búið að leggja mikla vinnu við rannsóknir og upplýsingaöflun.

Hann segir að einnig sé talað um það að ekki sé gerð nógu góð grein fyrir efnahagslegum ávinningi af framkvæmdinni og verði þá að taka mið af því að það liggur náttúrulega ekki ljóst fyrir fyrr en búið er að ganga frá hinum enda ferlisins, þ.e. álverinu og verði á rafmagni til þess. Stjórnvöld verði að skoða málið í heild sinni.

"Ég hef ekki leyft mér að hugsa það til enda ef ekki verður virkjað. Það hefur verið unnið að uppbyggingu margra hluta atvinnulífsins hérna undanfarið en það er búið að leggja mikið undir í tengslum við virkjunina. Ef hún gengur ekki eftir verð ég að segja að ég hef einnig áhyggjur af efnahagslífi þjóðarinnar. Ég er sammála orðum Halldórs Björnssonar, stjórnarmeðlims Lífeyrissjóðsins Framsýnar í Morgunblaðinu í gær þar sem hann segir:

"En hvað sem líður tilfinningum manna gagnvart umhverfi og náttúru verður að vera lífvænlegt í landinu og undirstöður velmegunarinnar verða einhvers staðar að fá að vera." Þetta er ekki spurning um Austurland heldur allt landið.Mér finnst það eðlilegt að Austfirðingar séu áhyggjufullir en ég vil ekki vera svartsýnn og ítreka að það sé á ábyrgð stjórnvalda að líta yfir heildarmyndina og meta málið sem slíkt," sagði Einar Már að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert