Mikil mengun hlýst af álverinu

Náttúruvernd ríkisins telur að mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði sýni að álverið muni valda mjög mikilli mengun og að ekki verði um sjálfbæra nýtingu á vatnsorku að ræða. Þetta kemur fram í umsögn sem Náttúruvernd hefur skilað til Skipulagsstofnunar.

Það er mat stofnunarinnar að matsskýrslan sýni að Reyðarfjörður sé ekki heppilegur fyrir stóriðjuframkvæmdir af þessu tagi.

Ljóst sé að álverið muni valda skemmdum og álagi á lífríki, bæði á sjó og landi. Við vissar aðstæður muni styrkur loftmengunar verða langt fyrir ofan viðmiðunarmörk, sem séu ætluð mönnum og skepnum. Þennan styrk verði að skoða, bæði með tilliti til vinnuverndarsjónarmiða og hvort hægt sé að leyfa íbúabyggð og dýrahald innan þynningarsvæðisins.

Það er mat stofnunarinnar að verði af byggingu álvers, sé álver með 280 þúsund tonna framleiðslugetu of stórt. Í fyrri umsögn sinni taldi Náttúruvernd að ekki bæri að leyfa meira en 120 þúsund tonna álver með möguleika á stækkun, sýndu rannsóknir að það væri óhætt.

Flestir umsagnaraðilar fallast á álver

Þrettán opinberir aðilar hafa skilað inn umsögnum um matsskýrsluna til Skipulagsstofnunar. Flestir fallast þeir á byggingu álvers, en gera helst athugasemdir við útblástur og frárennsli frá verinu.

Hollustuvernd ríkisins segir í umsögn sinni að í matsskýrslunni sé ekki heildstæð umfjöllun um áhrif rafskautaverksmiðjunnar, sem fyrirhugað er að verði við álverið, á umhverfið. Stofnunin telur einnig að kanna þurfi þau áhrif sem hljótist af svokölluðum PAH-efnum, sem myndast við rafgreiningu og framleiðslu forskauta og talin eru krabbameinsvaldandi.

Þá segir í mati Hollustuverndar að sterkar líkur séu á að magn brennisteinsdíoxíðs fari yfir heilsufarsmörk í næsta nágrenni við álverið. Þetta eigi við bæði fyrir 280 þúsund tonna álver og 420 þúsund tonna ver, ásamt rafskautaverksmiðju. Hollustuvernd geti ekki fallist á það, mengun skuli ætíð vera undir viðmiðunarmörkum - einnig innan þynningarsvæðisins.

Tíu athugasemdir frá almenningi

Í gær höfðu innan við tíu athugasemdir borist Skipulagsstofnun frá almenningi, en frestur til að gera athugasemdir rennur út á miðnætti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert