Samfélags- og efnahagslegar forsendur óljósar

Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði eru engan veginn fullkönnuð að mati Kristínar Einarsdóttur, lífeðlisfræðings og fyrrverandi alþingismanns, og telur hún að ekki sé hægt að fallast á framkvæmdir eins og gerð er grein fyrir þeim í matsskýrslum Landsvirkjunar og Reyðaráls. Þá telur hún samfélagslegar og efnahagslegar forsendur verkefnisins langt frá því að vera ljósar og að mat á fórnarkostnaði hafi enn ekki farið fram.

Niðurstöður sínar dregur Kristín af umsögnum 17 sérfræðinga á vegum Landverndar um skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og skýrslu Reyðaráls um álver á Reyðarfirði, sem ásamt háspennulínum hefur verið nefnt Noral-verkefnið.

Í vinnu sérfræðinganna var megin áherslan lögð á Kárahnjúkavirkjun en minni áhersla lögð á matsskýrslu vegna Reyðaráls, þar sem stutt er síðan skýrslan var lögð fram.

Sérfræðingunum var einkum ætlað að skoða með hvaða hætti niðurstöðum rannsókna væru gerð skil í matsskýrslum, taka saman ábendingar sem nýta mætti til að fá glögga mynd af áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda og greina álitamál og atriði sem kynnu að þurfa betri skoðunar við. Í þeim niðurstöðum sem Kristín hefur dregið af skoðun sérfræðinganna kemur fram að skýrsla framkvæmdaaðila um Kárahnjúkavirkun sé nokkuð vel unnin og gefi á mörgum sviðum allgott yfirlit yfir þau áhrif sem framkvæmdir myndu hafa á náttúruna. Þó bendi sérfræðingar á að tími til rannsókna hafi verið skammur og niðurstöðurnar beri þess merki, sér í lagi varðandi samfélags- og efnahagsleg áhrif.

Kristín vitnar í skýrslu Landsvirkjunar þar sem segir að verndargildi landsins á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar sé hæst á hálendinu vegna sérstöðu þess og hversu lítið það sé snortið af mannavöldum. Hún segir því ekki um það deilt að mikilli og sérstæðri náttúru sé fórnað, verði Kárahnjúkavirkjun að veruleika. Hins vegar komist Landsvirkjun að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif séu innan skekkjumarka í ljósi hins efnahagslega ávinnings sem virkjunin muni skila þjóðinni.

Veruleg áhætta bæði fyrir Landsvirkjun og þjóðarbúið

Að sögn Kristínar kemst Landsvirkjun að þessari niðurstöðu þó ekki sé í skýrslunni lagt neitt mat á efnahagslegt gildi þeirra verðmæta sem fórna þurfi vegna framkvæmdanna. Fram komi í matsskýrslunni að framkvæmdaaðili telji það ekki hlutverk sitt að standa fyrir hagfræðilegri rannsókn á fjárhagslegu mati, frá umhverfislegu sjónarmiði, á þeim breytingum sem yrðu á náttúru virkjanasvæðisins eða meta efnahagslegt gildi óbyggðra víðerna. Þjóðfélagsleg áhrif Noral-verkefnissins í heild hafi verið metin, þ.e. orkuframleiðsla og álver, og ávinningurinn sé það mikill að réttlætanlegt sé að fórna þeim verðmætum sem glatast.

"En hvernig er það reiknað? Það er auðvitað matsatriði hvernig meta á land sem fer undir mannvirki, gróður, fornminjar, jarðfræði og fleiri verðmæti. Lágmarkið er að gera tilraun til þess og nota þær aðferðir sem til eru og þróaðar hafa verið í þessu skyni. Það eru ekki frambærileg rök að ekki sé hægt að meta fórnarkostnaðinn," segir Kristín.

Hún segir framkvæmdaaðila fullyrða að verkefnið sé hagkvæmt og ætlast sé til þess að því sé trúað, án þess að gefnar séu upp þær stærðir sem liggi til grundvallar. Þjóðhagsstofnun meti það svo að landsframleiðsla aukist um 8-15 milljarða króna á ári vegna Noral-verkefnisins, útflutningstekjur vaxi um 14% og atvinna aukist, en stofnunin geri hins vegar enga tilraun til að meta fórnarkostnaðinn.

Kristín segir að fjárfestingar vegna virkjunar, háspennulínu til Reyðarfjarðar og byggingar álvers geti samtals orðið um 250-300 milljarðar króna og verði að stærstum hluta fjármagnaðar af innlendum aðilum. Slíkar fjárfestingar kalli óhjáhvæmilega á aðgerðir í ríkisfjármálum. "Búast má við að hið opinbera þurfi að draga verulega úr fjárfestingum í öðrum landshlutum og spurningin er hvort menn hafi gert sér grein fyrir þeim afleiðingum sem það getur haft fyrir önnur byggðarlög og svæði sem eiga í vök að verjast ekki síður en Austurland. Auk þess mun fjármagnið sem einkaaðilar, bankar og lífeyrissjóðir leggja til framkvæmdanna ekki fara í fjárfestingu annars staðar."

Að mati Kristínar er ekki verið að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og skapa eftirsóknarverð og vel launuð störf með byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði, heldur þvert á móti. Ef af áformum verði muni verulegur hluti af orkulindum landsmanna verða notaður til að framleiða ál og með því sé verið að taka verulega áhættu, ekki aðeins fyrir Landsvirkjun heldur þjóðarbúið í heild.

Nauðsynlegt að skoða allt verkefnið í samhengi

"Ef ekki er gert ráð fyrir að Landsvirkjun eða Reyðarál geri arðsemismat þar sem metinn er sá fórnarkostnaður sem varðar þetta dæmi þá getur varla talist ósanngjörn krafa að ríkisvaldið sjái til þess að fjárhagslegt mat verð lagt á þann skaða sem þessar framkvæmdir myndu valda. Hagfræðingar tala gjarnan um að ekkert fáist ókeypis, það sé bara spurning um það hver það er sem greiði reikninginn. Það sama á við hér. Á hverjum lendir fórnarkostnaðurinn?"

Kristín segist telja nauðsynlegt að skoða allt Noral-verkefnið í samhengi; virkjun, háspennulínur og álver. Þar sem verkefnið sé bútað niður séu heildaráhrif þess ekki metin og erfitt geti reynst að fá heildarsýn. Þá telur hún að samkvæmt niðurstöðum sérfræðinganna sé ýmsu ábótavant í matsskýrslu um umhverfisáhrif, þótt niðurstöður séu í heildina byggðar á góðum rannsóknum.

"Þótt niðurstöður matsskýrslunnar séu á heildina litið byggðar á nokkuð góðum rannsóknum er þó víða ýmsu ábótavant. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu, einkum fyrri hluta virkjunarinnar. Stíflur við Kárahnjúka og Hálslón yrðu ótvírætt stærsti hluti virkjunarinnar og hefðu mest áhrif á umhverfið. Svæði þau sem varða síðari hluta virkjunarinnar eru ekki eins vel rannsökuð og þarfnast mun betri skoðunar áður en unnt er að leggja hliðstætt mat á þau. Að lokum skal það ítrekað að samfélagslegar og efnahagslegar forsendur verkefnisins eru langt frá því að vera ljósar og að mat á þeim mikla fórnarkostnaði, sem þarna yrði um að ræða, hefur enn ekki farið fram. Ég tel að umhverfisáhrif Noral-verkefnisins séu engan veginn fullkönnuð.

Með vísan til þess sem ég hef hér gert grein fyrir mæli ég gegn því að fallist verði á framkvæmdirnar eins og gerð er grein fyrir þeim í matsskýrslum Landsvirkjunar og Reyðaráls," segir Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert