Yfirborð Lagarfljóts kólnar lítillega við Kárahnjúkavirkjun

Yfirborð Lagarfljóts mun kólna lítilsháttar ef virkjað verður við Kárahnjúka og vatn úr Jökulsá á Dal fer að renna þangað úr Hálslóni. Kólnunin er mest að sumarlagi, að meðaltali um 0,5°C en getur nálgast 1°C undir haust. Yfirborðshiti Lagarfljóts nú mælist að jafnaði á bilinu 8-10°C á sumrin en 0-2°C á vetrum. Yfirborðshiti vatnsins gæti lækkað á veturna um 0,2°C að meðaltali vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þessar spár eiga við áhrif af fyrri áfanga Kárahnjúkavirkjunar.

Þetta kemur fram á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar. Þar segir jafnframt að gert sé ráð fyrir að síðari áfangi virkjunar hafi lítil áhrif en þót frekar í þá átt að draga úr kólnun á sumrin og færa ástandið nær því sem það var fyrir virkjun. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (VST) er að vinna að skýrslu um rannsókn á hugsanlegum hitabreytingum Lagarfljóts í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Notað var sérstakt reiknilíkan til að meta áhrif virkjunarinnar með gögnum frá Orkustofnun, Veðurstofu Íslands og VST um veður og vatnsrennsli fyrir og eftir virkjun. Á Kárahnjúkavefnum segir að niðurstaða sérfræðinga sé sú að Kárahnjúkavirkjun myndi sáralítil áhrif hafa á vatnshita í Lagarfljóti. Ísmyndun myndi nánast ekkert breytast og áhrif á veðurfar við vatnið yrðu lítil sem engin. Hugsanlegra áhrifa kólnunar myndi gæta allra næst vatninu. Á sumrin getur orðið verulega heitt á íslenskan mælikvarða í Fljótsdal. Við þær aðstæður er vatnið kaldasti hluti umhverfisins og eykur þar með stöðugleika lofts á svæðinu. Eftir virkjun telja vísindamennirnir að vatnið verði aðeins kaldara en áður og gæti því tilhneiging til myndunar hitahvarfa yfir vatninu orðið sterkari í hægum vindi, þ.e. kalt loft blandast hægar heitara lofti örfáum metrum ofan við vatnsborðið. Áhrif á hitastig ættu þó að vera hverfandi. Egilsstaðabær er utan áhrifasvæðis yfirborðskólnunar Lagarfljóts vegna fjarlægðar og hæðar. Það er því ekki reiknað með neinum áhrifum á veðurfar þar. Kárahnjúkavefurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert