Hægt að mæta aukinni orkuþörf með hraðari virkjunarframkvæmdum

Þorsteinn Hilmarsson, talsmaður Landsvirkjunar, segir að með því að flýta því að veita vatni úr Jökulsá í Fljótsdal til Kárahnúkavirkjunar verði hægt að mæta þeirri auknu orkuþörf sem Reyðarál gerir nú ráð fyrir vegna fyrsta áfanga álvers í Reyðarfirði. Hann segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um málið hjá Landsvirkjun, enda sé tiltölulega skammt síðan fyrirtækið fékk fréttir af því að framleiðslugetan í fyrsta áfanga geti orðið 280 þúsund tonn á ári í stað 240 þúsund tonna sem áður var rætt um.

Þorsteinn segir að einnig sé fyrir hendi sá kostur að virkja í Bjarnarflagi eða að auka orkuframleiðslu við Kröflu. Þá þarf að flytja orkuna til Austfjarða, og yrði þá byggðalínan annað hvort styrkt eða ný lína lögð við hlið hennar. „Þetta er allt hægt, en að sjálfsögðu háð arðsemi og því að samningar náist," segir Þorsteinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert