Stefnt að ákvörðun um álver í ársbyrjun 2002

Útlit er fyrir að álver í Reyðarfirði geti tekið til starfa á árinu 2006 og hugsanlega fyrr ef sú áætlun stenst að tekin verði ákvörðun um að hefja framkvæmdir við virkjun og álver á Austurlandi í ársbyrjun 2002. Er það meira en einu ári fyrr en áður var talið. Fulltrúar þeirra sem koma við sögu þessara framkvæmda hafa skrifað undir yfirlýsingu um að hefja lokakafla undirbúnings. Framundan eru viðræður um eignaraðild að álverinu og undirbúningur að umhverfismati fyrir virkjun og álver og fleira.

Kynna á viljayfirlýsinguna fyrir hádegi í dag. Undir hana hafa skrifað Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Eivind Reiten, forstjóri Hydro Aluminium, Bjarne Reinholdt, framkvæmdastjóri Reyðaráls hf., Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Geir A. Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Hæfis hf. Aðilar Noral-verkefnisins töldu nauðsynlegt að setja nýja áætlun um framgang undirbúnings í framhaldi af þeim breytingum sem urðu á liðnum vetri á fyrirhuguðum virkjana- og álversframkvæmdum.

Var þá ákveðið að kanna hagkvæmni þess að reisa 240 þúsund tonna álver í fyrstu í stað 120 þúsund tonna álvers sem þýddi að ráðast yrði í aflmeiri virkjun. Er því nauðsynlegt að breyta virkjanaröð og ráðast fyrst í gerð Kárahnúkavirkjunar en áður var ætlunin að hefjast handa við Fljótsdalsvirkjun.

Svipuð atriði og í Hallorms- staðaryfirlýsingu

Yfirlýsingin tekur til svipaðra atriða og yfirlýsing sem skrifað var undir á Hallormsstað 29. júní í fyrra, þ.e. kostnaðaráætlana, samninga um eignarhald álversins, raforkuverðs, fjármögnunar, aðstöðu í Reyðarfirði og fleira. Fram þarf að fara mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnúkavirkjunar og 240 þúsund tonna álvers og stefna aðilar að því að allar forsendur, til að unnt verði að taka ákvörðun, liggi fyrir í ársbyrjun 2002.

Verði ákvörðun tekin í ársbyrjun 2002 og leyfi fáist til að hefja framkvæmdir er vilji fyrir því hjá aðilum Noral-verkefnisins að hraða framkvæmdum sem mest. Upphaflega var talið að orkuafhending gæti hafist fimm til sex árum eftir að ákvörðun liggur fyrir eða 2007-2008 en nú er talið hugsanlegt að Kárahnúkavirkjun geti verið tilbúin ekki seinna en árið 2006 og hugsanlega rúmu hálfu ári fyrr og að framleiðsla geti þá hafist í álveri í Reyðarfirði um svipað leyti en talsvert lengri tíma þarf til að koma virkjun í gagnið en álveri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert