Arðsemi skilyrði virkjunarframkvæmda

Tölvumynd af væntanlegu álveri við Reyðarfjörð.
Tölvumynd af væntanlegu álveri við Reyðarfjörð.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að það sé skilyrði fyrir því að ráðist verði í framkvæmdir við Kárahnjúka- og Fljótsdalsvirkjanirnar að hægt verði að sýna fram á arðsemi þeirra. Skuldir Landsvirkjunar munu aukast úr um 60 milljörðum í um 150 milljarða króna við framkvæmdirnar, en Friðrik segir að hugsanlega muni fyrirtækið selja hluta af dótturfyrirtækinu sem stofnað verður um framkvæmdirnar.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Landsvirkjunar, Reyðaráls og iðnaðar- og viðskiptaráðherra í dag. Friðrik útilokaði ekki að útlendum aðilum yrði gefinn kostur á að kaupa hlut í dótturfyrirtækinu. Fram kemur í fréttatilkynninngu frá Reyðaráli að að fyrsti áfangi álversins, með 240 þúsund tonna afkastagetu á ári, muni kosta um 70 miljarða íslenskra króna. Ráðgert er að auka afkastagetuna í 360 þúsund tonn síðar, og bætist þá um 30 milljarða kostnaður við. Norska fyrirtækið Hydro Aluminium hefur lýst sig reiðubúið að eiga allt 40% í álverinu, en áður, þegar miðað var við 120 þúsund tonna álver, hafði fyrirtækið skuldbundið sig til að eiga 20%.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert