Hungur sverfur að tæplega 300 milljónum

Kona með börn sín í stráhreysi í Suður-Gadaref í Súdan …
Kona með börn sín í stráhreysi í Suður-Gadaref í Súdan 20. mars en borgarastyrjöld þar hefur komið stórum hluta þjóðarinnar á vergang og orðið tugum þúsunda að bana. AFP

Fæðuöryggismál horfðu til verri vegar í heiminum árið 2023 miðað við árin á undan, en í fyrra þjáðust 282 milljónir manns í heiminum af bráðu hungri eftir því sem nokkrar stofnanir og þróunarhópar á vegum Sameinuðu þjóðanna áætla.

Á þetta einkum við fórnarlömb stríðs á Gasasvæðinu og í Súdan en eftirlitsaðilarnir töldu einnig til veðuröfgar síðustu ára auk efnahagslegra áfalla. Reikna þeir út að fórnarlömbum hungurs hafi fjölgað um 24 milljónir í veröldinni milli áranna 2022 og '23 og er þeirri tölu slegið fram í nýjustu skýrslu Upplýsinganets um fæðuöryggi, Food Security Information Network.

Skýrslan boðar enn fremur daprar horfur árið 2024 en tilgangur hennar er upplýsingagjöf á þessum vettvangi til stofnana SÞ, Evrópusambandsins, ríkisstofnana og annarra aðila utan opinbera geirans.

1,1 milljón á mörkum sveltis á Gasa

Árið 2023 var fimmta árið í röð sem alvarlega fæðuóöruggu fólki í heiminum fjölgaði, en skilgreiningaratriði þar er að fæðuskortur ógni lífi og heilbrigði byggðarlaga, óháð orsök eða lengd slíkra skortstímabila.

Í fyrra juku þau svæði heimsins, sem svo var ástatt um, umfang sitt til muna og seig verulega á ógæfuhliðina í tólf þjóðlöndum. Má þar nefna Gasasvæðið í þeim væringum sem geisað hafa milli Ísraels og Palestínu síðan í haust, þar voru um 600.000 manns á mörkum sveltis í fyrra en sú tala nemur nú 1,1 milljón.

Börn verða ekki síst fyrir barðinu á fæðuskorti og skrifar Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, í inngangsorðum skýrslunnar að fjöldi barna í heiminum sé að svelta í hel. „Í heimi allsnægta eru börn að svelta,“ skrifar Guterres og ræðir um stríð, hamfarahlýnun og efnahagslega neyð sem samtvinnist aðgerðaleysi stjórnvalda í þeirri afleiðingu að hátt í 300 milljónir manns í heiminum hafi búið við alvarlegan fæðuskort í fyrra.

Dreifingarkostnaður erfiður ljár í þúfu

„Fjárframlög hrökkva skammt miðað við þörfina,“ skrifar framkvæmdastjórinn enn fremur og ratast þar satt orð á munn þar sem dreifingarkostnaður fæðusendinga til hamfarasvæða hefur aukist úr hömlu og eins og fram kemur í meginmáli skýrslunnar eru stríðsátök helsta ástæðu fæðuskorts í 20 löndum eða landsvæðum þar sem 135 milljónir manna þjást fyrir vikið.

Þá eru veðurtengd fyrirbæri á borð við flóð og þurrka helsta ástæða fæðutengds óöryggis 72 milljóna manns í 18 löndum og efnahagslegar hamfarir hafa orsakað það sama hjá 75 milljónum í 21 landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert