Úthverfin urðu að kviksyndi

Þrátt fyrir að áratugur sé liðinn er enn ljóst í huga Gordon Cullen hvernig hann komst út úr hárri skrifstofubyggingu í nýsjálensku borginni Christchurch þegar jarðskjálftinn reið þar yfir 22. febrúar 2011.

Fastur á fimmtu hæð byggingarinnar, eftir 6,3 stiga skjálfta sem átti eftir að verða 185 manns að bana í borginni, stökk Cullen út um brotinn glugga með brunaslöngu í fanginu og klöngraðist niður á þak bílastæðahúss.

„Skjalaskápar voru að velta um koll, skrifborð voru að fara frá enda til enda, það var mikið um öskur,“ segir Cullen í samtali við AFP.

AFP

Í hópi þeirra heppnu

Hann og starfsfélagar hans bundu brunaslönguna um sófa, komu honum fyrir við gluggann og svo stukku þeir út og héldu um slönguna.

„Ég hugsaði á þeim tíma að hendurnar mínar væru að verða ansi heitar. Ég var að reyna að miða á bíl, svo ef ég dytti þá myndi ég lenda á vélarhlífinni,“ segir hann.

Ómeiddur komst hann frá byggingunni. Og í þessari fjögur hundruð þúsund manna borg, sem nú býr sig undir að minnast þess að tíu ár séu frá harmleiknum, telur hann sig í hópi þeirra heppnu.

„Þetta er orðið langur tími. Hér erum við tíu árum síðar og þetta er enn ansi sárt fyrir suma.“

AFP

Sprungan óþekkt

Christchurch hafði gengið í gegnum fleiri og stærri skjálfta áður. Sex mánuðir voru frá mun öflugri skjálfta, upp á 7,1 stig, sem skaðað hafði byggingar en olli engu manntjóni.

En höggið sem skall á borginni þennan morgun átti grunn upptök, aðeins fimm kílómetra undir yfirborðinu, á áður óþekktri sprungu sem liggur beint undir Christchurch.

Afleiðingarnar voru skelfilegar. Skrifstofubyggingar hrundu, beittar sprungur opnuðust í jörðu á umferðarþungum vegum og búðarskyggni hrundu á gangandi vegfarendur sem sekúndum áður höfðu verið að njóta hádegisgöngu í góðu veðri.

AFP

Féll saman eftir skjálftann

Heilu úthverfin urðu fyrir skemmdum þar sem jarðvegurinn undir þeim breyttist í kviksyndi eftir bylgjur skjálftans.

Flest dauðsföllin urðu í CTV-byggingunni, sex hæða skrifstofubyggingu sem féll saman á innan við tuttugu sekúndum eftir að skjálftinn reið yfir, áður en kviknaði í rústunum.

Alls létust við það 115 manns, þar á meðal 65 erlendir nemendur, flestir frá Kína og Japan. 

Opinber rannsókn leiddi í ljós að byggingin var svo illa hönnuð að hún hefði aldrei átt að fá byggingarleyfi. Byggingarstaðlar voru hertir verulega í landinu í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert