14 ára í dag - konungur í framtíðinni

Kristján prins.
Kristján prins. www.kongehuset.dk

Einn góðan veðurdag verður hann konungur Danmerkur. En núna er hann 14 ára strákur með öllu því sem unglingsárunum fylgir. Kristján prins, elsti sonur Friðriks krónprins Danmerkur og Mary krónprinsessu á afmæli í dag og af því tilefni er flaggað víða um konungsríkið.

Börn Friðriks og Mary með ömmu sinni, Margréti Þórhildi Danadrottningu. …
Börn Friðriks og Mary með ömmu sinni, Margréti Þórhildi Danadrottningu. Frá vinstri: Ísabella, Josephine, Margrét, Kristján og Vincent. www.kongehuset.dk

Hann fæddist á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn þennan dag árið 2005, hann vó 3 og hálft kíló og var 51 sentímetri að lengd. Í janúar árið eftir var hann skírður Christian Valdemar Henri John. Fyrsta nafnið skýrir sig sjálft; sú hefð hefur verið frá árinu 1513 að konungar Danmerkur heita til skiptis Friðrik og Kristján (reyndar verður undantekning gerð þegar Friðrik faðir hans tekur við völdum; síðasti Danmerkurkonungur á undan honum var afi hans, Friðrik IX).

Kristján prins er 14 ára í dag.
Kristján prins er 14 ára í dag. www.kongehuset.dk

Valdemarsnafnið er komið frá Valdemar Atterdag, konungi Danmerkur 1340 - 1375 og Henri er skírnarnafn afa hans, sem var kallaður Henrik í Danmörku. Nafnið John er í höfuðið á móðurafanum, John Donaldson.

Kristján prins að föndra fyrir jólin með föður sínum Friðriki …
Kristján prins að föndra fyrir jólin með föður sínum Friðriki og Josephine systur sinni. www.kongehuset.dk

Elstur í hópi fjögurra systkina

Prinsinn hóf leikskólagöngu sína þegar hann var eins og hálfs árs á vöggustofu Louise drottningar í Fredensborg og þar fylgdu honum lífverðir frá dönsku leyniþjónustunni. Hann varð stóribróðir árið 2007 þegar systir hans, Ísabella prinsessa fæddist og enn bættist í hópinn þegar tvíburarnir Vincent og Josephone fæddust árið 2011. 

Afmælisbarn dagsins. Mary krónprinsessa, móðir hans, tók myndina.
Afmælisbarn dagsins. Mary krónprinsessa, móðir hans, tók myndina. www.kongehuset.dk

Kristján prins byrjaði í Tranegårdskolen grunnskólanum í bænum Gentofte haustið 2011 en mun, frá og með næstu áramótum og fram á vor stunda nám í alþjóðlega skólanum Lemania-Verbier í Sviss ásamt systkinum sínum.

Friðrik og María með móður Friðriks, Margréti Þórhildi Danadrottningu. Frá …
Friðrik og María með móður Friðriks, Margréti Þórhildi Danadrottningu. Frá vinstri; Friðrik, Ísabella, Josephine, Margrét, Kristján, Mary og Vincent. www.kongehuset.dk

Verðandi krónprins

Prinsinn hefur í auknum mæli tekið þátt í opinberum athöfnum með foreldrum sínum, umfram systkini sín, enda verður hlutverk hans annað en þeirra þegar fram líða stundir. Hann verður krónprins þegar faðir hans, Friðrik, tekur við konungdómi og verður þá Friðrik X. Verði fyrirkomulagið það sama og það var varðandi föður hans, þá mun hann fá ýmsar formlegar skyldur þegar hann verður 18 ára.

Friðrik og Mary með börnum sínum á 50 ára afmælisdegi …
Friðrik og Mary með börnum sínum á 50 ára afmælisdegi Friðriks, 26. maí í fyrra. Frá vinstri: Friðrik, Vincent, Kristján, Ísabella, Josephine og Mary. www.kongehuset.dk

Þegar prinsinn ungi verður konungur verður titill hans, eins og hefðin býður, Kristján XI.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert