Ég heiti Alexander...

Ruslan Boshirov og Alexander Petrov. Eða Anatolí Chepiga og Alexander …
Ruslan Boshirov og Alexander Petrov. Eða Anatolí Chepiga og Alexander Mishkin. AFP

Hann heitir Alexander Mishkin ekki Alexander Petrov og er læknir sem starfar fyrir rússnesku leyniþjónustuna. Hann er annar þeirra sem reyndi að drepa Skripal-feðginin með eitri í mars. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef Bellingcat en hópur rannsóknarblaðamanna hefur unnið að rannsókninni undanfarið. Telegraph greinir einnig frá nafni mannsins. 

BBC vísar í Bellingcat en þar kemur fram að Mishkin starfi fyrir rússnesku leyniþjónustuna, GRU, og hann hafi komið til Bretlands á fölsuðum skilríkjum. Í síðasta mánuði nefndi Bellingcat hinn manninn, Anatolí Chepiga, sem hef­ur verið sæmd­ur hetju-heiðursorðu Rúss­lands, sem annan tveggja manna sem eitruðu fyrir fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal og Julíu dóttur hans. 

AFP

Á vef Bellingcat kemur fram að kennsl hafi verið borin á Mishkin af fólki sem þekkir hann og eins af afriti af vegabréfi hans. Samkvæmt vegabréfum hans, falsaða og ófalsaða, heitir hann Alexander og á afmæli sama dag hvort sem hann ber eftirnafnið Mishkin eða Petrov.

Hann hóf störf hjá GRU þegar hann var að ljúka læknanámi og fór fyrir leyniþjónustuna í nokkra leiðangra til Úkraínu. Þar á meðal þegar uppreisnin stóð þar yfir árið 2013.

Það tók rannsóknarblaðamennina lengri tíma að bera kennsl á Mishkin en Chepiga þar sem afar litlar stafrænar upplýsingar eru til um hann. En með gögnum úr gagnasöfnum og vegabréfum var niðurstaðan sú að maðurinn sem kom undir nafninu Petrov til Salisbury heitir réttu nafni Mishkin. 

AFP

Sérfræðingar í samanburði á andlitsdráttum voru beðnir um að rannsaka tvær myndir, teknar með 15 ára millibili, og nýta til þess tækni sem tekur tillit til breytinga sem verða með hækkandi aldri viðkomandi. 

Á fimmtudaginn var upplýst um að fjórir starfsmenn GPU hefðu reynt að brjótast inn í samskipti OPCW, alþjóðlegrar stofn­unar gegn notk­un efna­vopna, í Hollandi á sama tíma og stofnunin var að rannsaka eitrunina í Salisbury. 

Að búið er að bera kennsl á Mishkin vekur fleiri spurningar um hversu auðveldlega hefur verið hægt að ljóstra upp um hverjir njósnararnir eru. Heimildir rússneskra fjölmiðla herma að forseti landsins, Vladimír Pútín, sem er fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar, sé afar ósáttur með handvömm GRU og von sé á hreinsunum hjá stofnuninni fljótlega.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert