Sprengihætta í eldsvoða í Svíþjóð

Eldurinn logar í byggingu á iðnaðarsvæði í Västerås.
Eldurinn logar í byggingu á iðnaðarsvæði í Västerås. Kort/Google

Mikill eldur logar í byggingu á iðnaðarsvæði í Västerås í Svíþjóð og eru íbúar í nágrenninu beðnir um að halda sig innandyra og loka gluggum. Gríðarlegan reykjarmökk leggur frá eldinum. Einn hefur verið fluttur á sjúkrahús. Hinn slasaði var að gera tilraun sem varð til þess að eldurinn kviknaði. „Þetta var tilraun með nýjan búnað sem fór til fjandans,“ segir hinn slasaði í samtali við Sænska ríkissjónvarpið. Hann hlaut áverka á höndum en þó ekki alvarlega.

Talsmaður fyrirtækisins segir að lögreglan hafi lokað af svæði umhverfis iðnaðarhúsnæðið sem eldurinn logar í. Er það gert af öryggisástæðum þar sem byggingin er á iðnaðarsvæði og hætta talin á að eldurinn breiðist út og valdi sprengingu.

Í frétt á vef Expressen má sjá myndband sem sýnir umfang eldsins.

Uppfært kl. 12.39: Eldurinn hefur læst sig í nærliggjandi hús á svæðinu. Slökkvilið segist enn ekki hafa náð tökum á eldinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert