„Ættleiða“ poppstjörnur

Kona dreifir blöðungum um kínversku drengjasveitina TFBoys.
Kona dreifir blöðungum um kínversku drengjasveitina TFBoys. AFP

Liang Shanshan er að eigin sögn móðir tveggja barna; annað þeirra er líffræðilegur sonur hennar og hitt 16 ára kínversk poppstjarna sem hún hefur aldrei hitt. Hún er „móður-aðdáandi“; ein af hópi kvenna frá 20 til 70 ára sem upplifa móðurlegar tilfinningar í garð kínversku drengjahljómsveitarinnar TFBoys.

Hljómsveitin var mynduð árið 2013 og aðdáendur hennar skipta milljónum. Hrifning þeirra er svo mikil að þeim tókst að safna nægu fjármagni til að kaupa auglýsingu á Times Square í New York þegar einn meðlima sveitarinnar átti afmæli.

Að sögn Liang eru tilfinningar hennar ekkert stundargaman; móðurleg umhyggja hennar í garð söngvarans Roy Wang er óhagganleg. „Aðdáun okkar er ekki léttvæg,“ útskýrir hún. „Ég hyggst fylgja honum eftir allan hans feril.“

Á meðan aðdáendur á táningsaldri dragast oftar en ekki að útliti poppstrákanna eru það „englalegir“ persónuleikar piltanna og þau heilnæmu gildi sem þeir boða sem Liang og vinir hennar hrífast að.

Sumar, líkt og hin 24 ára Yang Andan, ganga svo langt að fara árlegar pílagrímsferðir til heimabæjar Wang, Chongqing í Sichuan-hérðainu. „Því meira sem ég kynnist Wang, því betur kann ég við hann,“ segir Yang.

TFBoys: Karry Wang, Roy Wang og Jackson Yi.
TFBoys: Karry Wang, Roy Wang og Jackson Yi.

Tómt hreiður

Fjölskylda Liang hefur sætt sig við aðdáun hennar á poppstjörnunni. Fjögurra ára sonur hennar talar um meðlimi TFBoys sem „eldri bræður sína“ og eiginmaður hennar fer með henni á tónleika til að sjá Wang, og kallar hann „krakkann“ þeirra.

Anthony Fung, prófessor við kínverska háskólann í Hong Kong sem rannsakar poppkúltur, segir þessa aðdáun mæðra á ungum stjörnum mega rekja til kóreskra dramaþátta, sem eru gríðarlega vinsælir í Kína.

Hann segir TFBoys hafa afar „kóreskt yfirbragð“ og segir þennan ákveðna aðdáendahóp herma eftir móðurhlutverkinu; það er fylgja stjörnunni frá upphafi til enda. „Þær elska þessa heilbrigðu, krúttlegu ímynd,“ segir hann.

Nærri fjórðungur aðdáenda TFBoys er 30 ára eða eldri, að minnsta kosti helmingi eldir en drengirnir sjálfir. Að sögn Fung er þráhyggja kvennanna stundum til marks um það sem hann kallar „tómt hreiður-heilkenni“.

„Eldri aðdáendurnir kunna að eiga uppkomin börn og eru að leita að einhverjum öðrum til að verða miðpunktur athygli þeirra,“ segir hann.

Efnaðar kínverskar konur, sem margar hverjar eiga aðeins eitt barn vegna stefnu stjórnvalda, eru meira en tilbúnar til að eyða peningum í „stjörnu-börnin“ sín.

Til að fagna afmæli TFBoys meðlimsins Jackson Yi í nóvember sl. flugu aðdáendur kökulaga loftbelg yfir New York og héldu partý á skemmtiferðaskipi í Shanghai. Stundum er hollustan endurgoldin en á 15 ára afmæli sínu gaf Wang út lagið Because I Met You, sem hann tileinkaði aðdéndum sínum.

Kona heldur á farsíma með mynd af hljómsveitarmeðlimnum Roy Wang.
Kona heldur á farsíma með mynd af hljómsveitarmeðlimnum Roy Wang. AFP

„Mig vekjar í hjartað“

Yang útskrifaðist nýlega úr háskóla og vinnur hjá internet-fyrirtæki í Pekíng. Hún segist hafa lært mikið af söngvaranum, sem er nærri tíu árum yngri en hún.

Á hverju ári fer hún til Chongqing og hittir aðra aðdáendur sem hjálpast að við að þekja göturnar í TFBoys-veggspjöldum í tilefni afmælis Wang. Þá fara nokkrar svefnlausar nætur í að undirbúa gríðarstórar skreytingar.

Yang er svo heppin að hafa hitt stjörnuna nokkrum sinnum; á svokölluðum „meet and greets“ og sem meðlimur í „móttökunefndum“ sem taka á móti hljómsveitinni á flugvöllum.

„Í hvert sinn sem ég sé hann finnst mér ég ekki hafa séð nóg,“ segir Yang. „En mig verkjar í hjartar við að hugsa um hvað hann vinnur mikið. Ég vona að hann fái meiri tíma til að hvíla sig,“ bætir hún við.

Auk hljómsveitarstarfanna vinnur Wang með ýmsum góðgerðasamtökum og var fulltrúi Kína á ungmennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York fyrr á þessu ári. Dagskráin gefur honum lítinn tíma með raunverulegu fjölskyldunni, sem hann sér nokkrum sinnum á ári.

„Draumur minn hefur alltaf verið að afla nógu mikilla peninga til að kaupa hús handa foreldrum mínum og öfum og ömmum,“ sagði Wang í sjónvarpsviðtali í febrúar sl.

Aðdáendur skoða veggspjald með hljómsveitinni.
Aðdáendur skoða veggspjald með hljómsveitinni. AFP

Yang og Liang, sem ávarpa hvor aðra með „aðdáendanöfnum“ sínum, Sveppur og Gullfiskur, hafa báðar heitið því að vera trúar Wang, sem þær segja bæði hæfileikaríkari og betri manneskju en aðrir meðlimir TFBoys.

Þegar Wang hættir að vera barn, segir Liang, munu þau eldast saman.

Aðdáendur TFBoys á unglingsaldri eru ekki alltaf sáttir við að þurfa að deila stjörnunum með aðdáendum af kynslóð foreldra sinna. „Á einum tónleikum sagði ein stúlka að eiginmaður minn væri of gamall til að vera þarna,“ segir Liang og ypptir öxlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert