„Gæti verið mjög gaman að henda í eitt jólalag einhvern tímann“

Árið 2020 lét tónlistarkonan Katrín Myrra Þrastardóttir langþráðan draum rætast …
Árið 2020 lét tónlistarkonan Katrín Myrra Þrastardóttir langþráðan draum rætast þegar hún gaf út sitt fyrsta lag.

Tónlistarkonan Katrín Myrra Þrastardóttir ákvað að láta langþráðan draum rætast og gaf út sitt fyrsta lag árið 2020, en í dag hefur hún gefið út tíu lög og tvær smáskífur. Katrín Myrra hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tónlist og er með fallega sýn á lífið og tilveruna. 

Hver ert þú?

„Mér finnst þessi spurning alltaf jafn erfið af því að ég er svo margt fyrir mörgum, en það mætti segja að ég horfi á sjálfa mig sem sál eða meðvitund að fara í gegnum lífið sem Katrín Myrra. Þetta hljómar kannski hálf klikkað fyrir mörgum en mér finnst fallegt að geta horft á sjálfa mig í þessu ljósi.“

Katrín Myrra hefur alla tíð verið í kringum tónlist, en …
Katrín Myrra hefur alla tíð verið í kringum tónlist, en sem krakki var hún í söng og leiklist.

Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á tónlist?

„Tónlist hefur alltaf verið í kringum mig hvort sem það var þegar ég var fjögurra og fimm ára og mamma var að dilla sér með okkur við Noruh Jones eða þegar ég fékk Britney Spears æðið eða þegar ég var í söng og leiklist sem krakki. En ég man að ég hugsaði oft þegar ég var að hlusta á uppáhaldstónlistarfólkið mitt: „Af hverju get ég ekki búið til tónlist eins og þau?“

Þannig ég held að áhuginn hafi byrjað mjög snemma en ég lét ekki verða að því fyrr en um tvítugsaldurinn og síðan þá hefur áhuginn bara aukist og ég er alltaf að hugsa um næsta skref eftir að ég gef út lag.“

Hvernig kom það til að þú fórst að gefa út eigin tónlist?

„Þegar ég var unglingur hugsaði ég mjög oft um að byrja að búa til mína eigin tónlist en ég þorði því ekki af því að ég var hrædd um hvað öðru fólki myndi finnast um það. En eftir að hafa farið að ferðast ein áttaði ég mig á því hvað ég væri lítil í þessum heimi og hvað það skiptir ekki máli hvað ég geri. Enginn er að pæla jafn mikið í manni eins og maður sjálfur og fólkið sem fílar ekki það sem ég geri er ekki fólkið sem ég er að reyna ná til.“

Eftir að hafa ferðast um heiminn og farið í tvær …
Eftir að hafa ferðast um heiminn og farið í tvær reisur bæði um Afríku og Asíu ákvað Katrín Myrra að láta tónlistardrauminn rætast.

Hvernig hefur tónlistarferillinn gengið hingað til?

„Það hefur gengið mjög vel en það hefur líka verið mjög krefjandi. Það er svo margt skemmtilegt í þessu ferðalagi en ég myndi segja að eitt af því skemmtilegasta væri að koma fram og tengjast fólkinu sem hlustar á tónlistina mína, það eru mjög dýrmæt augnablik fyrir mér. Það hefur verið soldið krefjandi að koma sér inn í tónlistarbransann og getur verið soldið yfirþyrmandi þar sem ég er ein að sjá um allt sem tengist því. En ég hef lært svo mikið á því og auðvitað þarf maður bara að læra að gera mistök, taka við höfnun og verða fyrir vonbrigðum, en ég held alltaf bara áfram af því að þetta skemmtilega vegur svo miklu meira.“

Katrínu Myrru þykir skemmtilegast að koma fram á sviði og …
Katrínu Myrru þykir skemmtilegast að koma fram á sviði og tengjast fólkinu sem hlustar á tónlistina hennar.

Ertu mikið jólabarn?

„Ég hef alltaf elskað jólin, en ég myndi kannski ekki segja að ég sé mikið jólabarn af því ég þekki fólk sem er mikið jólabarn og það fólk er augljóslega mikið jólabarn.“

Áttu þér uppáhaldsjólalag?

„Síðan jólaplatan með Emmsjé Gauta kom út 2020 hefur uppáhalds jólalagið mitt verið Jólaminning með Aron Can, mér finnst textinn svo fallegur og bara kósí lag.“

Heldur þú að þú munir einhvern tímann gefa út jólalag?

„Það gæti alveg vel verið, það hefur aldrei verið eitthvað sérstaklega á planinu hjá mér en það gæti verið mjög gaman að henda í eitt jólalag einhvern tímann.“

Hvað er ómissandi um jólin?

„Fólkið mitt er ómissandi um jólin, en án þeirra væru voða lítil jól myndi ég segja.“

Katrín Myrra útilokar það alls ekki að hún muni einhvern …
Katrín Myrra útilokar það alls ekki að hún muni einhvern tímann gefa út jólalag.

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Ég byrja alltaf á Harry Potter-maraþoni svona þegar það styttist í desember sem er byrjunin á jólastemmaranum en svo eru það aðallega jólalögin sem koma mér mest í jólaskap, en ég elska líka öll fallegu ljósin í myrkrinu.“

Jólin hjá Katrínu Myrru byrja alltaf með Harry Potter-maraþoni.
Jólin hjá Katrínu Myrru byrja alltaf með Harry Potter-maraþoni.

Hvernig verða jólin hjá þér í ár?

„Ég er skilnaðarbarn eins og helmingur þjóðarinnar þannig ég skiptist alltaf á að vera með mömmu eða pabba um jólin. Þetta eru jólin hans pabba í ár þannig ég verð þar, sem er bara stemmari. Við systurnar förum kannski í jólamessu í Grafarvogskirkju, það hefur stundum verið hefð hjá okkur. En svo eldum við systurnar og pabbi saman og ég verð örugglega bara látin sjá um salatið þar sem minn styrkleiki liggur ekki mikið í eldhúsinu. Svo höfum við það bara huggulegt, opnum pakkana og svo hitti ég kærastann minn seinna um kvöldið.“

Katrín Myrra ásamt kærasta sínum Krissa.
Katrín Myrra ásamt kærasta sínum Krissa.

Hvernig klæðir þú þig um jólin?

„Ég er yfirleitt í kjól um jólin sem er mjög gaman af því að ég er mjög sjaldan í kjólum.“

Hvað er ómissandi í fataskápinn yfir hátíðirnar?

„Mér finnst eiginlega alveg möst að eiga góðan pels eða góða úlpu yfir hátíðirnar. Ég er svo mikil kuldaskræfa og mér finnst svo leiðinlegt að vera stússast eða kíkja út og vera alltaf kalt.“

En snyrtibudduna?

„Húðin mín á það til að vera þurrari útaf kuldanum þannig ég segi gott rakakrem og ég er líka alltaf með SPF 50+ andlits sólarvörn.“

Katrín Myrra er yfirleitt í kjól um jólin.
Katrín Myrra er yfirleitt í kjól um jólin.

Hvað er besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég get eiginlega ekki valið eina, það er alltaf gaman að fá gjafir. En ég elska þegar fólk gefur mér persónulega gjöf – það þarf ekki að vera neitt stórt, bara t.d. uppáhaldsnammið mitt eða eitthvað sem ég veit að manneskjan tengir mig við finnst það mjög krúttlegt.“

Hvaða fimm hlutir eru efst á jólagjafalistanum þínum í ár. 

Ég átti mjög erfitt með að finna eitthvað sem mig langaði í en ég komst að þessari niðurstöðu: Gjafabréf með Play eða Icelandair, ilmvatn, gjafabréf í nudd, Skinners sokkaskór og útvíðar ræktarbuxur.“

Í kuldanum þykir Katrínu Myrru ómissandi að vera með gott …
Í kuldanum þykir Katrínu Myrru ómissandi að vera með gott rakakrem og sólarvörn í snyrtibuddunni.

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég er að fara gefa út nýtt lag í byrjun 2024 þannig desember fer soldið í að undirbúa það og mögulega skipuleggja útgáfupartí. En svo er ég að vinna í tveimur öðrum lögum þannig það er alveg nóg af nýrri tónlist á leiðinni frá mér og ég er mjög spennt að byrja þetta nýja ár með krafti.“

Það er margt spennandi framundan!
Það er margt spennandi framundan!
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.