Eiga loksins von á stelpu

Bræðurnir Hilmar, Sesar og Hector eru spenntir fyrir því að …
Bræðurnir Hilmar, Sesar og Hector eru spenntir fyrir því að eignast systur.

Eygló Mjöll Óladóttir á von á sínu fjórða barni með unnusta sínum Sævari Erni Hilmarssyni. Parið á loksins von á dóttur en fyrir eru þrír hressir strákar á heimilinu sem heita Hilmar, Sesar og Hector. Synirnir eru sjö ára, fjögurra ára og þriggja ára. 

„Ég get verið mjög þolinmóð og aðra daga mjög óþolinmóð. Ég get verið bæði mjög slök yfir vitleysunni sem drengirnir mínir taka upp á og það getur líka farið alveg öfugt ofan í mig aðra daga. Fyrst og fremst reyni ég bara að gera hlutina eftir bestu getu á hverjum degi,“ segir Eygló þegar hún er spurð hvernig mamma hún sé.

Hvað finnst þér mest krefjandi við foreldrahlutverkið?

„Það væri þegar strákarnir eru allir að eiga erfiðan dag og rífast, slást og öskra og vilja ekki hlusta, sama hvað maður reynir. Ef það gerist þegar ég er ein heima með strákana getur verið rosa erfitt að reyna róa þá alla niður. Það er vanalega best að vera með þá hvern í sínu lagi. Á svoleiðis dögum líður mér eins og það sé mér ofviða að vera foreldri með þrjá stráka,“ segir Eygló.

Sævar Örn Hilmarsson og Eygló Mjöll Óladóttir eiga von á …
Sævar Örn Hilmarsson og Eygló Mjöll Óladóttir eiga von á sínu fjórða barni.

Búið að langa lengi í stelpu

Var alltaf draumur að eiga stóra fjölskyldu?

„Ég á sjálf tvær systur þannig að planið mitt var alltaf að eiga þrjú börn en svo er svo erfitt að setja sér svona markmið fyrr en maður eignast börnin og prófar að vera foreldri. En hver veit hvar ég enda i barneignum?“

Hvernig er að eiga loksins von á stelpu?

„Það er alveg æðislegt, okkur er búið að langa svo mikið í stelpu en á sama tíma leið mér eins og það myndi ekki gerast. Það er svo skrýtið að eiga þrjá stráka og vera alveg vön því og fá síðan bleikt og hugsa bara: hvað bíður mín eiginlega? Ég kann bara að eiga stráka með algjöran gauragang og fantabrögð,“ segir Eygló og hlær.

Fjölskyldan varð hissa þegar bleikir pappírsstrimlar komu út úr kynjasprengjunni.
Fjölskyldan varð hissa þegar bleikir pappírsstrimlar komu út úr kynjasprengjunni.

Fyrsta fæðingin reyndi á hjartað

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Hún hefur gengið mjög vel nema í fyrsta sinn er grindin mjög slæm,“ segir Eygló en fyrsta og þriðja meðgangan hennar voru áhættumeðgöngurnar. Auk þess að finna til í grindinni finnur hún helst fyrir því að eiga þrjú börn fyrir.

„Það er allt annað mál að eiga fyrsta barn og geta slakað á eða eiga þrjú önnur börn og þurfa að gera mikið eins og þrífa, taka til, elda og sinna börnum,“ segir Eygló og bætir við að það sé ekki mikill tími til að slaka á með þrjú börn.

Það er alltaf stuð hjá bræðrunum.
Það er alltaf stuð hjá bræðrunum.

Er einhver fæðing eftirminnilegri en önnur?

„Ég myndi segja að fæðing fyrsta barnsins hafi verið erfiðust fyrir hjartað vegna þess að hann fæddist með gastroschisis sem þýðir að garnirnar (smágirnið) stóðu út úr maganum og hann þurfti að fara í aðgerð strax sama dag. Ég fór af stað þegar ég var komin 35 vikur og tvo daga á leið. Ég fékk hann ekki í fangið um leið og hann fæddist heldur voru læknar inni að bíða eftir að taka á móti honum. Mamma spurði hvort ég mætti ekki kyssa hann og þær rétt svo leyfðu mér að kyssa hann á ennið, síðan var hann tekinn og settur í sérstakan poka til að vernda gegn sýkingarhættu. Ég lá bara og grét þangað til ég fékk að sjá hann eftir aðgerð, allan í nálum og snúrum. Ég var bara tvítug og ekki alveg undirbúin fyrir þennan tilfinningarússíbana og sorgina sem fylgdi því að þurfa skilja hann eftir uppi á spítala eftir að við vorum útskrifuð og þurftum að fara heim til að sofa,“ segir Eygló.

Þegar næstelsta barnið kom heiminn gekk allt mjög vel. „Ég fór niður á spítala og meðgangan hafði verið alveg eðlileg þannig að engir fylgikvillar, allt bara þægilegt og gekk vel fyrir sig. Á meðgöngu númer þrjú blæddi frá fylgju frá viku 13 og þurfti ég að vera á spítala í tvo daga til að stoppa blæðinguna. Eftir það mátti ég ekkert gera, bara liggja út af, þangað til ég fór sjálf af stað þegar ég var komin 36 vikur og sex daga á leið. Þá missti ég vatnið uppi á spítala eftir að hafa verið í hríðamónitor í hálftíma. Ég rétt náði að labba inn á herbergi og var toguð úr buxunum og hann var mættur 13 mínútum seinna.“

Eygló er spennt fyrir fjórðu fæðingunni. „Í þetta skiptið er ég rosalega spennt af því að ef allt fer vel og ég næ að ganga 37 vikur með þá mun ég fæða heima og ég held að það verði æði.“

Fjölskyldunni finnst skemmtilegt að fara út að borða saman.
Fjölskyldunni finnst skemmtilegt að fara út að borða saman.

Góð rútína skiptir máli

Hvað leggurðu áherslu á í uppeldinu?

„Að börnin hafi trú á sér, hafi gott sjálfstraust og geti sýnt tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt og bæli þær ekki niður.“

Ertu með góð ráð þegar kemur að því að eiga mörg ung börn?

„Að hafa góða rútínu sem hentar þínu heimili og halda henni, hlutirnir ganga allavega best hjá okkur þegar við pössum að hafa rútínuna þeirra í góðu lagi. Síðan að sjálfsögðu draslið, ég hef engin ráð með það annað en að ekki láta það trufla þig of mikið. Á meðan börnin eru ung verður alltaf fljótt drasl og dót út um allt. Það þarf ekki alltaf að reyna að hafa allt eins og það búi enginn á heimilinu heldur er draslið bara tímabil, síðan vaxa börnin og þá hættir að vera svona mikið drasl,“ segir Eygló brosandi.

Hvenær á fjölskyldan sínar bestu stundir?

„Sennilega um helgar. Okkur finnst gaman að fara út að borða í bröns, fara í bíó, í keilu og gera eitthvað sem hleypir út orkunni þeirra. Við elskum líka að að eiga kósíkvöld saman þar sem við pöntum mat heim, borðum öll kvöldmatinn í sófanum og fáum okkur síðan snakk og nammi, horfum á mynd og dröslum til eins og enginn sé morgundagurinn. Já það má heldur betur borða í sófanum mínum því það er bara miklu skemmtilegra!“

Fjölskyldan á góðar stundir saman um helgar.
Fjölskyldan á góðar stundir saman um helgar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert