„Það er fín lína á milli þess að vera pabbi og þjálf­ari“

Hestamaðurinn Sigvaldi Lárus Guðmundsson er búsettur á Laugalandi í Holtum …
Hestamaðurinn Sigvaldi Lárus Guðmundsson er búsettur á Laugalandi í Holtum ásamt fjölskyldu sinni. Samsett mynd

Sigvaldi Lárus Guðmundsson er búsettur á Laugalandi í Holtum ásamt eiginkonu sinni Mörtu Gunnarsdóttur og börnunum þeirra tveimur, þeim Elísabetu Líf sem er 14 ára og Helga Hrafni sem er 10 ára. Fjölskyldan er á kafi í hestamennsku og unir sér vel í sveitinni, en Sigvaldi segir það vera mikil forréttindi að fá að ala börnin sín upp í sveit og í kringum hestana. 

Sigvaldi er hestamaður í húð og hár og ólst upp í hestamennsku í Dalabyggð. Hann er bæði menntaður reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum og starfar sem slíkur. Hann hefur unnið við tamningu hesta víða um land en einnig kennt í Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og stýrir í dag hæfileikamótun LH sem er afreksstarf innan Landssambands hestamannafélaga þar sem hann vinnur með ungum og efnilegum knöpum á aldrinum 14-17 ára. 

„Það hafa alltaf verið hestar í kringum mig frá því ég man eftir mér. Pabbi var tamningamaður og þau mamma áttu töluvert af hestum þegar ég var yngri þannig að maður þekkir ekkert annað en að hafa ferfætlingana í kringum sig. Ég held að það hafi alltaf blundað í mér að ég myndi fara þessa leið þó að ég hafi prófað eitt og annað í gegnum tíðina. Hugurinn var og er einhvern veginn alltaf við hestana,“ segir Sigvaldi.

Sigvaldi hefur verið í kringum hesta frá ungum aldri.
Sigvaldi hefur verið í kringum hesta frá ungum aldri.

Gaman að fylgjast með krökkunum í kringum hestana

Sigvaldi segir það vera mikil forréttindi að fá að ala börnin sín upp í sveit. „Þau læra að lifa og bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu ásamt því að umgangast dýrin alla daga, sinna þeim, læra hvernig á bera sig að í kringum þau og eins og með hestana, hvernig við fáum þá til að skilja okkur og við þá. Þetta er mikill skóli og ef vel gengur þá hefur það mjög mikil jákvæð áhrif á einstaklingana,“ útskýrir hann.

„Það hefur verið rosalega gaman að fylgjast með krökkunum okkar í kringum hestana því börn eru oft svo heiðarleg og blátt áfram og það er eins og hestarnir skynji það og verða forvitnir svo það myndast oft mjög skemmtilegt samband milli þeirra. Ég hugsa oft að þarna sé eitthvað sem við fullorðna fólkið getum lært af krökkunum,“ bætir hann við. 

Sigvalda þykir skemmtilegt að fylgjast með tenglsunum sem myndast á …
Sigvalda þykir skemmtilegt að fylgjast með tenglsunum sem myndast á milli barnanna hans og hestanna.

Elísabet og Helgi voru byrjuð að fara á bak ung að aldri enda deilir fjölskyldan miklum hestaáhuga.

„Við erum svo lánsöm að krakkarnir hafa mikinn áhuga á hestum, ekki mikið minna en maður sjálfur þó svo að það hafi aldrei verið sett nein pressa á þau með það. Þau byrjuðu bæði frekar ung að fara á bak, ætli þau hafi ekki verið um 6 ára aldurinn þegar þau fóru fyrst að fara í reiðtúr með mér en á undan því voru þau búin að vera inni í reiðhöll og teymt undir þeim. Þau eru kannski aðeins ólík með það samt að Elísabet hefur alltaf riðið mikið út en Helgi tekið það aðeins meira í skorpum þó svo að hann mæti í hesthúsið og er þá að snúast í einhverju öðru líka. Elísabet hefur keppt töluvert mikið þrátt fyrir ungan aldur og alltaf verið spennt fyrir því. Helga finnst rosalega gaman að fara á hestbak en er enn ekki eins spenntur fyrir því að fara keppa, en svo breytist það kannski,“ segir Sigvaldi.

„Það er ekki síður skemmtilegt að fylgjast með tengslunum á milli krakkanna og hestanna þegar þau eru að þjálfa þá eða keppa. Þau þurfa að bregðast við einhverju sem kemur upp t.d. inni á hringvelli og geta komið skilaboðum til hestsins síns og læra af því. Þetta er nefnilega aðeins öðruvísi þegar verið er að vinna með lifandi dýr, það er ekki bara hægt að ýta á einhvern takka eins og ef maður sæti við tölvu eða eitthvað því um líkt. Í hestaíþróttum eru nefnilega tveir að keppa saman, hestur og maður,“ bætir hann við.

Feðginin flott saman í keppnisgír!
Feðginin flott saman í keppnisgír!

Aðspurður segir Sigvaldi það vera töluvert öðruvísi að kenna sínum eigin börnum samanborið við að kenna öðrum.

„Það er svolítið erfitt að útskýra þetta í orðum. Það er fín lína á milli þess að vera pabbi og þjálfari og reyna ná því besta fram úr bæði knapa og hesti án þess að láta tengslin hafa áhrif á það sem er í gangi. Eins getur örugglega verið erfitt að hlusta á pabba sinn stundum sem þjálfara en ekki pabba,“ segir hann. 

„Aftur á móti er fátt meira gefandi en þegar maður sér börnin ná markmiðum sínum. Hluti af þessu er líka taka þátt í því þegar eitthvað gengur ekki upp eða mistekst af því að það er líka mikill lærdómur sem þau læra ekki minna af og þurfa að vinna úr því,“ bætir hann við. 

Sigvaldi veitt fátt betra en að fylgjast með Elísabetu og …
Sigvaldi veitt fátt betra en að fylgjast með Elísabetu og Helga ná markmiðum sínum.

„Ég held að maður verði bara að betri manni“

Í uppeldinu reyna Sigvaldi og Marta að styðja börnin sín eins vel og þau geta í því að þau verði sjálfstæðar og góðar manneskjur. 

„Ég reyni að leggja áherslu á að börnin séu jákvæð, bjartsýn og heiðarleg en standi samt líka a sínu og að þau trúi á það sem þau eru að gera,“ segir Sigvaldi.

Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart við föðurhlutverkið segir Sigvaldi það vera hvað það er rosalega gefandi en um leið krefjandi að fá að vera í kringum krakkana frá því að þau eru lítil og þar til þau fara að fullorðnast. 

„Maður fer að horfa á lífið með öðruvísi augum og ég held að maður verði bara að betri manni að hafa þau í kringum sig. Maður getur líka lært heilmikið af þeim, ekki síður en að ég sé alltaf að reyna að kenna þeim eitthvað,“ segir hann.

Það besta við föðurhlutverkið að mati Sigvalda er að fá að snúast í kringum Elísabetu og Helga alla daga. 

„Maður yngist allur upp við það og þau halda manni við efnið, maður þarf að standa sig og vera þeim góð fyrirmynd. Þau gera mig stoltan alla daga!“ segir hann.

„Það sem er hins vegar mest krefjandi við að vera pabbi er sú staðreynd að við foreldrarnir þurfum að koma börnunum okkar til manns, sjá til þess að þau verði góðir og heiðarlegir einstaklingar sem í framtíðinni muni láta til sín taka. En tengt hestamennskunni, ætli mér finnist ekki hvað mest krefjandi þegar þau eru að keppa. Elísabet t.d. á hesti, komin inn á hringvöll og ég get ekki skipt mér af – en kannski samt sem betur fer fyrir hana! Ætli maður geti ekki stundum verið pínu óþolandi,“ bætir hann við. 

Feðgarnir flottir saman á góðri stundu.
Feðgarnir flottir saman á góðri stundu.

„Erum að gera það sem okkur finnst gaman“

Það er alltaf nóg um að vera hjá fjölskyldunni, en þau byrja þó alla daga eins. „Hefðbundinn dagur hefst alltaf á hafragraut og lýsi hjá okkur öllum og er kaffið lífsnauðsynlegt fyrir okkur fullorðna fólkið til að koma sér af stað. Marta kennir við Grunnskólann á Laugalandi þannig að hún og krakkarnir byrja daginn þar en ég fer niður í hesthús. Þar byrja allir dagar á því að gefa og moka og síðan er farið í að þjálfa hestana,“ segir Sigvaldi.

„Krakkarnir koma síðan seinni partinn niður í hesthús ef það eru ekki einhverjar tómstundir sem þau fara í fyrst en Elísabet spilar á píanó og Helgi fer í flest allar íþróttir sem eru í boði; handbolta, fótbolta og körfubolta. Við reynum að gefa í hesthúsinu um sexleytið en stundum vilja dagarnir dragast aðeins á langinn en það er bara allt í lagi því við erum að gera það sem okkur finnst gaman,“ bætir hann við.

Fjölskyldan eyðir miklum tíma í hesthúsinu.
Fjölskyldan eyðir miklum tíma í hesthúsinu.

Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni en nýtt tímabil hófst með haustinu og hafa Sigvaldi og Elísabet verið á fullu í frumtamningum undanfarið. 

„Svo fara að týnast inn eldri hrossin í byrjun nóvember og þar eru keppnishrossin okkar en þau hafa þá verið í um tveggja mánaða fríi frá þjálfun. Elísabet hefur verið að keppa töluvert mikið síðustu ár og stundar núna hestamennsku af fullum krafti og tekur m.a. þátt í hæfileikamótuninni. Helgi er síðan allur að eflast og ætlar að hafa hross á húsi í vetur og aldrei að vita nema við munum sjá til hans eitthvað á brautinni á næsta ári en það mun tíminn leiða í ljós,“ segir Sigvaldi.

„Eftir áramót fara síðan af stað vetrardeildirnar sem eru mótaraðir af stað. Elísabet tekur þátt í Meistaradeild æskunnar og ég sjálfur er í Suðurlandsdeildinni hér á Hellu. Næsta sumar er síðan Landsmót hestamanna og auðvitað stefnum við öll þangað þannig að það verður nóg um að vera og við munum ekki láta okkur ekki leiðast,“ segir hann að lokum.

Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni og nóg af …
Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni og nóg af keppnum sem þau stefna á.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert