„Mig hafði alltaf dreymt um að vera ung mamma“

Nadía Atladóttir hefur verið í fótbolta frá því hún man …
Nadía Atladóttir hefur verið í fótbolta frá því hún man eftir sér, en hún spilar í dag með uppeldisfélagi sínu Víking Reykjavík.

Hinni 23 ára gömlu Nadíu Atladóttur hafði alltaf dreymt um að verða móðir ung, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, Marino, í maí 2022 ásamt kærasta sínum Arnari Frey Ársælssyni. Nadía spilar fótbolta með Víking sem urðu bikarmeistarar kvenna í fótbolta í ágúst síðastliðnum, en Nadía skoraði tvö af þremur mörkum í sigurleik þeirra á móti Breiðablik. 

Samhliða fótboltanum er Nadía í meistaranámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og rekur barnafataverslunina MóMama. „Ég hef verið að reka þessa verslun núna í þrjú ár og hefur hún verið á netinu þar til núna í haust þegar ég opnaði loksins litla verslun sem mig er búið að dreyma um á Linnetstíg í Hafnarfirði,“ segir Nadía. 

Það er því óhætt að segja að Nadía sé með marga bolta á lofti, en hún kynntist Arnari einmitt í gegnum boltann þegar hún var 17 ára gömul. „Við vorum þá bæði að æfa í FH, hann í handbolta og ég í fótbolta. Við í rauninni bara kynnumst í Kaplakrika, frekar krúttleg saga. Við vorum búin að vera að pæla í hvort öðru frekar lengi áður en hann loksins tók af skarið og bauð mér á deit,“ rifjar Nadía upp. 

Fjölskyldan alsæl saman á ströndinni.
Fjölskyldan alsæl saman á ströndinni.

„Ég var betri líkamlega heldur en andlega“

Aðspurð segir Nadía að henni hafi liðið mjög vel þegar hún komst að því að hún væri ófrísk. „Mig hafði alltaf dreymt um það að vera ung mamma og það var alltaf planið hjá mér. En á sama tíma kom strá stress um mig, en jákvætt stress. Þegar maður kemst að því að maður sé óléttur þá fer maður langt í hausnum og byrjar að sjá allt fyrir sér sem er mjög skemmtilegt,“ segir hún. 

„Meðgangan gekk vel, en ég upplifði smá ógleði á 10. til 12. viku, en annars leið mér heilt yfir ágætlega. Ég var betri líkamlega heldur en andlega, en mér fannst ég oft á tíðum ólík sjálfri mér – samt ekki þannig að mér hafi liðið illa, en ég var bara ekki ég sjálf,“ segir Nadía. 

Nadía er afar þakklát fyrir að hafa geta hreyft sig á meðgöngunni. „Ég hætti að mæta á fótboltaæfingar í kringum 18. viku, en þá fann ég að það var kominn tími til að stoppa. Ég hélt samt áfram að hreyfa mig um hugsa vel um mig,“ segir hún. 

Heilt yfir leið Nadíu vel á meðgöngunni.
Heilt yfir leið Nadíu vel á meðgöngunni. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

„Aldrei á planinu að taka þátt í boltanum þetta sumarið“

Nadía byrjaði að finna fyrir hríðum sólarhring fyrir fæðingu og segir bið og verki hafa tekið við. „Mér fannst mjög gott að liggja í sturtu eða í baði og dvaldi þar þangað til við fórum upp á spítala. Við komum upp á spítala upp úr klukkan fimm sunnudaginn 1. maí og eftir þrjá tíma í baði þar kom Marino í heiminn á slaginu tíu. Fæðingin gekk í raun frekar hratt og ótrúlega vel fyrir sig miðað við að þetta var fyrsta barn,“ segir hún. 

Nadía með Marino nýfæddan á fæðingadeildinni.
Nadía með Marino nýfæddan á fæðingadeildinni.

Marino kom í heiminn þann 1. maí 2022, en þá var tímabilið í fótboltanum nýbyrjað. „Ef ég er alveg hreinskilin þá var það aldrei á planinu að taka þátt í boltanum þetta sumarið, ætlaði að prófa að taka eitt sumar þar sem það væri enginn fótbolti. En síðan þegar ég mætti á fyrsta leikinn hjá stelpunum fann ég að það var ekki séns að ég væri að fara að sitja uppi í stúku í sumar, ég bara gæti það ekki,“ segir Nadía. 

„Ég var samt mjög róleg og byrjaði að hreyfa mig sex vikum eftir fæðingu eins og mér var ráðlagt. Ég var samt mjög meðvituð og fór ekki fram úr mér, leyfði líkamanum að ráða ferðinni. Ég byrjaði svo að mæta á fótboltaæfingar í byrjun júli og það gekk mjög vel, en ég var auðvitað alls ekki á sama stað og ég var áður en ég var ólétt. Svo kom þetta bara hægt og rólega og ég spilaði minn fyrsta leik eftir fæðingu í ágúst,“ bætir hún við. 

Nadía spilaði sinn fyrsta leik rúmum þremur mánuðum eftir fæðingu.
Nadía spilaði sinn fyrsta leik rúmum þremur mánuðum eftir fæðingu.

„Það sem kom mér á óvart í því ferli er hvað líkaminn er magnaður – að ganga með barn, fæða það og svo stuttu seinna að geta hreyft sig verkjalaus, það er alveg ótrúlegt hvernig líkaminn virkar,“ segir hún.

Marino og hundurinn á heimilinu, Emma, sem er af tegundinni …
Marino og hundurinn á heimilinu, Emma, sem er af tegundinni Pug.

Mikilvægast að hafa trú á sjálfri sér

Spurð hvort hún sé með einhver ráð fyrir mæður sem eru að koma sér aftur af stað í hreyfingu eftir fæðingu segir Nadía mikilvægast að hafa trú á sjálfri sér. „Þetta kemur allt með tímanum og maður þarf að vera þolinmóður því þetta krefst mikillar vinnur, metnaðar og tíma. Þetta gerist alls ekki strax, en ekki gefast upp,“ segir hún. 

Nadía segir mikilvægast að hafa trú á sjálfri sér í …
Nadía segir mikilvægast að hafa trú á sjálfri sér í ferlinu.

Aðspurð segir Nadía lífið hafa breyst til hins betra eftir að hún varð mamma. „Ég elska að vera mamma. Mér finnst þetta hlutverk svo skemmtilegt, að vakna alla daga og horfa á hann vaxa er ólýsanlegt. Maður má samt ekki gleyma sjálfri sér, fjölskyldu og vinum þegar maður er orðin mamma,“ segir hún.

„Það er ekki margt sem hefur komið mér á óvart við móðurhlutverkið. Ég hef einhvern veginn alltaf „vitað“ hvernig það er að vera mamma, ég var búin að sjá þetta allt fyrir mér. Það sem kemur mér kannski mest á óvart er hvað allir tala um hvað það er erfitt og mikil vinna að eignast börn, en ég hef ekki upplifað það þannig og horfi ekki á þetta sem erfiði,“ útskýrir hún. 

Marino er stuðningmaður númer eitt!
Marino er stuðningmaður númer eitt!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert