Olga var óróleg á meðgöngu eftir að hafa upplifað fósturlát áður

Mæðgurnar nutu samverustunda á Tenerife.
Mæðgurnar nutu samverustunda á Tenerife. Ljósmynd/Julia Shcherbakova.

Olgu Helgadóttur hafði lengi dreymt um að verða móðir. Hlutverkið var henni hugleikið og jafnframt hennar helsta lífsósk. Sjálf missti Olga móður sína í kjölfar erfiðra veikinda fyrir nokkrum árum síðan og upp frá því hófst gífurleg sjálfsvinna, uppbygging og úrvinnsla á líkama og sál. 

Það var svo hinn 21. ágúst 2021 að lífið breyttist til hins betra þegar Ronja Svanborg kom í heiminn og í dag hefur Olgu tekist að skapa sér nýtt líf ásamt ungri dóttur sinni. 

„Upp úr þrítugu fann ég að ég var raunverulega tilbúin að takast á við móðurhlutverkið og allt sem því fylgdi. Ég hafði hugsað um það í mörg ár. Það kom ákveðinn tímapunktur þar sem ég fann að nú var ég tilbúin að takast á við þetta stóra og mikla verkefni. Ég var búin að vinna mikið í sjálfri mér og komin á þann stað í lífinu að ég taldi mig klára að bjóða barn velkomið í heiminn. 

Það er erfitt að útskýra nákvæmlega hvernig ég fann það út en ég býst við að það hafi verið af því að mér var farið að líða betur í eigin skinni og orðin sátt við manneskjuna sem tók á móti mér í speglinum á morgnana,“ útskýrir Olga. 

Olga með dóttur sína nýfædda.
Olga með dóttur sína nýfædda. Ljósmynd/Ellen Inga Hannesdóttir

Gleði, kvíði og ótti

Olga hrökk í kút þegar hún komst að þunguninni enda tiltölulega nýbúin að kynnast manni. „Mér brá enda átti ég ekki beint von á þessu. Eftir tæpan klukkutíma breyttist sú tilfinning í ómælda gleði en einnig kvíða og ótta. Ég hafði áður misst fóstur þá komin rúmlega sex vikur á leið og var þar af leiðandi dauðhrædd um að sagan myndi endurtaka sig. Það eina sem ég vildi gera á þessari stundu var að leggjast upp í rúm og vernda þetta viðkvæma og dýrmæta fóstur,“ segir hún. 

Gleði og ánægja tóku þó fljótt völdin. „Ég man hvað mér þótti vænt um þetta litla barn og hvað það var undarleg tilfinning, en það vaknaði mikil móðurást sama dag og ég fékk jákvætt þungunarpróf,“ segir Olga. „Þrátt fyrir það fannst mér þetta allt svo óraunverulegt og skrýtið allt þar til ég fór í snemmsónar og sá barnið mitt, svart á hvítu,“ útskýrir hún. 

Olga kynntist manni af erlendum uppruna. Þau felldu saman hugi og fljótlega varð hún ófrísk. „Meðgangan var ekki plönuð en hjartanlega velkomin. Ég hafði nýlega kynnst barnsföður mínum og varð ófrísk fljótlega eftir kynnin. Við vorum bæði mjög ánægð með tíðindin,“ segir Olga, en faðir Ronju Svanborgar hélt til síns heima á 12. viku meðgöngunnar og hefur verið búsettur erlendis síðan. „Við reyndum að halda úti fjarsambandi en það fjaraði út skömmu síðar,“ útskýrir Olga. 

Olga og Ronja Svanborg eiga náið samband.
Olga og Ronja Svanborg eiga náið samband. Ljósmynd/Julia Scherbakova

Kvíðafull á meðgöngu

Meðganga Olgu gekk vel en mikill kvíði hrjáði hana. „Ég fékk enga ógleði né aðra fylgikvilla sem margar konur upplifa en á 30. viku fór ég að fá mjög slæma grindargliðnun. Það sem angraði mig á meðgöngunni var kvíði og ótti. Ég var mjög hrædd um að eitthvað kæmi fyrir barnið en var mjög heppin og fékk gott utanumhald í mæðravernd sem endaði á að hjálpa mér mjög mikið,“ segir hún. 

Olga fékk að heimsækja mæðravernd reglulega til að láta hlusta á fósturhjartsláttinn. „Það hjálpaði til við að róa taugarnar en ég fór einnig oftar í sónarskoðun en almennt gengur og gerist á meðgöngu. Ég fjárfesti í skoðunum hjá 9 mánuðum en það hjálpaði mér að sjá barnið þegar ég var kvíðafull,“ útskýrir Olga. 

Þar sem barnsfaðir Olgu þurfti að halda til heimalands síns snemma á meðgöngutímanum var hún ein alla meðgönguna en naut þess innilega að vera ófrísk og fylgjast með lífinu í bumbunni. „Mér fannst þetta skemmtilegur og góður tími. Það var yndislegt að upplifa hreyfingarnar, fylgjast með bumbunni stækka, heimsækja mæðravernd og sjá krílið stækka og dafna. Mér fannst meðgöngutíminn og allur undirbúningurinn yndislegur. Ég hugsa til baka með mikilli hlýju,“ segir hún. 

Olga hefur öðlast nýja sýn á lífið eftir að hún …
Olga hefur öðlast nýja sýn á lífið eftir að hún varð móðir. Ljósmynd/Julia Shcherbakova.

Svefnlaus og örmagna

Olga gekk með dóttur sína í 41 viku og fimm daga. „Ég fór á mánudegi, þá komin 41 viku, og hitti ljósmóður sem hreyfði við belgnum. Í framhaldi fór ég að fá verki sem héldu fyrir mér vöku næstu nætur. Á fimmtudeginum var enn og aftur hreyft við belgnum og daginn eftir voru verkirnir orðnir harðir en enn þá óreglulegir,“ útskýrir Olga, sem ákvað samt að halda upp á spítala þar sem hún hafði lítið sem ekkert sofið í tæpa viku á þeim tímapunkti. 

„Það var lítið að gerast hjá mér en ljósmæðurnar sáu hversu örmagna ég var þarna og lögðu mig inn. Mér voru gefin hríðastoppandi lyf, matur og ég var látin sofa. Stuttu seinna var ég flutt upp á fæðingarherbergi en þar kom í ljós að ég var með háan hita, blóðsýkingu, búin að missa vatnið og að streitumörk barnsins voru orðin hættulega há. Ég var því mjög slöpp og skalf eins og hrísla með sýklalyf í æð í gegnum alla fæðinguna,“ segir hún. 

Um leið og Olga fékk dóttur sína í fangið gleymdi hún öllu sem var að gerast í kringum sig. „Að fá hana í fangið í fyrsta sinn var ólýsanleg tilfinning. Hún var einfaldlega það fallegasta og besta sem ég hafði nokkru sinni séð. Ég gat ómögulega tekið augun af henni. Ronja Svanborg kom í heiminn kl. 01:33. Ég svaf lítið þá nótt, ég horfði bara undrandi augum á litla barnið mitt. 

Fyrstu tíu dagana okkar saman gat ég vart lagt hana frá mér, ég starði bara á hana. Fyrir mér var þetta magnaðasta og ólýsanlegasta lífreynsla sem ég hafði upplifað á mínum 32 árum,“ segir Olga. 

Olga og Ronja Svanborg, en millinafnið er í höfuðið á …
Olga og Ronja Svanborg, en millinafnið er í höfuðið á móður Olgu sem lést áður en barnabarnið kom í heiminn. Ljósmynd/Julia Shcherbakova.

„Lífið breyttist mjög mikið“

Olga segir líf sitt hafa breyst til hins betra eftir að hún varð móðir. „Lífið gjörbreyttist við að verða móðir. Þegar þú ferð frá því að vera einstæðingur yfir í það að sjá um annan einstakling sem reiðir sig 100% á þig öllum stundum, þá er það heilmikil breyting,“ útskýrir hún. 

Hvernig er lífið sem einstæð móðir?

„Lífið sem einstæð móðir er skemmtilegt, gefandi, krefjandi en oft á tíðum erfitt. Lífið tekur algjörum stakkaskiptum og krefst skipulags og forgangsröðunar. Við mæðgurnar eigum gott og styrkt samband og erum mjög duglegar að gera hluti saman. Mér finnst þetta umfram allt mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir hún. 

Olga er heppin að eiga gott stuðningsnet sem styður við bakið á henni. „Ég á yndislegan föður sem hefur hjálpað mér mikið með Ronju Svanborgu. Hann er frábær afi og litla stúlkan mín er mikil afastúlka. Ég er einnig heppin með stóra bróður og get reitt á hann og fjölskyldu hans við hvert tækifæri, sem og aðra úr stórfjölskyldunni og vinahópnum,“ segir Olga, sem viðurkennir þó að vera frekar eigingjörn á tímann með dóttur sinni. „Hún fer ekki oft í pössun og þá aldrei í langan tíma,“ útskýrir hún. 

Olga missti móður sína og bestu vinkonu í kjölfar erfiðra veikinda árið 2015. Mæðgnasamband þeirra var náið og uppfullt af ást og segir hún það enn þá mjög erfitt að geta ekki leitað móðurráða hjá henni.

„Móðir mín lést árið 2015 og hefur það oft reynst okkur virkilega erfitt. Hún átti ráð og eða svar við öllu milli himins og jarðar. Mamma var einstök kona sem ég syrgi enn. Ég er miður mín yfir því að hún skuli ekki hafa fengið tækifæri til að kynnast litlu ömmustúlkunni sinni, sem heitir í höfuðið á henni. Ég syrgi það mjög að þær hafi ekki fengið að kynnast,“ segir Olga. 

Aðspurð segist Olga vilja getað leita ráða hjá móður sinni.
Aðspurð segist Olga vilja getað leita ráða hjá móður sinni. Ljósmynd/Julia Shcherbakova.

„Söknuðurinn er sterk tilfinning en ég passa að halda minningu mömmu á lofti og kynni Ronju Svanborgu fyrir ömmu hennar í gegnum ljósmyndir, lög og sögur. Við heimsækjum kirkjugarðinn reglulega og setjum ljós og heimagert skraut við leiðið,“ útskýrir hún.

Ást og meiri ást

Þær skyldur sem fylgja því að vera móðir eru margskonar. „Það besta við móðurhlutverkið að mínu mati er þessi skilyrðislausa ást milli móður og barns sem hefst strax í móðurkviði. Þessi einstaka gleði sem sprettur af því að fylgjast með Ronju Svanborgu þroskast og stækka er ólýsanleg og gefandi. 

Frá fyrsta degi hefur dóttir mín kennt mér á lífið, heiminn og sjálfa mig. Móðurhlutverkið hefur verið einn lærdómsríkasti tími lífs míns,“ segir Olga í lokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert