„Við ætlum að skella okkur í sveitina og hafa það kósí“

Fjölskyldan er einnig dugleg að ferðast.
Fjölskyldan er einnig dugleg að ferðast. Ljósmynd/Steinunn Jónsdóttir

Steinunn Jónsdóttir tónlistar- og blaðakona er alltaf með mörg járn í eldinum og marga bolta á lofti. Hana þekkja flestir úr rappsveitinni Reykjavíkurdætrum og reggí hljómsveitinni AmabAdamA. Steinunn er skapandi, ljóðræn, forvitin, fær og hugmyndarík og hafa fjölmargir notið hæfileika hennar í gegnum tíðina, bæði í söng, dansi og ritun. 

Hún býr ásamt eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Gnúsa Yones, og tveimur sonum á fallegu heimili í Fossvoginum í Reykjavík. Aðspurð segist Steinunn spennt fyrir komandi frídögum með drengjunum og eiginmanninum. 

„Við ætlum að skella okkur í sveitina og hafa það kósí. Stefnan er að spila mikið, njóta náttúrunnar og vonandi fara í sund í góðri sveitalaug ef hún er opin,“ útskýrir hún. 

Fjölskyldan í París.
Fjölskyldan í París. Ljósmynd/Steinunn Jónsdóttir

Göngutúrar, góð tónlist og dans

Steinunn segir fjölskylduna duglega að nýta sér svæðið í kringum heimili sitt. „Þegar veðrið er ekki of leiðinlegt förum við oft í göngutúra í Fossvoginum eða í Elliðaárdalnum, sem er hérna rétt hjá. Okkur finnst líka mjög gaman að fara á bókasöfn, en þar finna allir fjölskyldumeðlimir eitthvað við sitt hæfi. 

Fjölskylduland er líka áfangastaður sem við heimsækjum reglulega. Annars erum við dugleg að kíkja til ættingja eða bjóða heim. Þar kveikjum við á góðri tónlist og dönsum. Þetta þarf alls ekki að vera flókið,“ útskýrir Steinunn. 

Deila börnin áhugamálum?

„Það er mikill aldursmunur á bræðrunum, yngri er tveggja ára og eldri er tíu ára gamall. Þrátt fyrir það eru þeir mjög góðir og elska að hoppa á trampólíni, kubba, horfa á eitthvað skemmtilegt og dansa með mömmu. Feluleikur er einnig mjög vinsæll leikur hjá þeim báðum og þeim yngri finnst eldri bróðir sinn líka fyndnastur í heimi svo þeir hlæja mikið saman,“ segir Steinunn að lokum, sem heldur nú spennt af stað í sveitaferð. 

Steinunn og strákarnir hennar ætla að njóta vetrarfrísins í sveitinni.
Steinunn og strákarnir hennar ætla að njóta vetrarfrísins í sveitinni. Ljósmynd/Steinunn Jónsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert