„Það skiptir máli að viðhalda góðu sambandi“

Hildur og synir hennar.
Hildur og synir hennar. Ljósmynd/Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir

Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir starfar sem arkitekt og vinnur við bæjarskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Hún er einstæð tveggja barna móðir og deilir forræði með barnsföður sínum. Hildur segir hreinskilni og góð samskipti forráðamanna vera lykilatriði þegar kemur að uppeldi barna. þetta eru hennar helstu uppeldisráð.

  1. Það er mikilvægt að rækta sjálfan sig og hlúa að sinni eigin líðan. Það gerir þig að betra foreldri og eykur þolinmæði. Ég reyni að gera eitthvað skemmtilegt og orkugefandi fyrir mig en reyni einnig að finna leiðir til að fá börnin með mér í það sem mér þykir gaman. Það er gefandi á báða bóga.

  2. Börnin græða á því að eyða tíma með vinum og vandamönnum. Það er því mikilvægt að nýta baklandið og komast yfir foreldra samviskubitið sem snýr að því að biðja um aðstoð.

  3. Það skiptir okkur foreldranna miklu máli að viðhalda góðu sambandi. Við erum ekki alltaf sammála en erum ágætis vinir og tölum vel um og við hvort annað. Þetta skiptir miklu máli að gera við og í kringum börnin.

  4. Sem einstæð móðir með sameiginlegt forræði þá reyni ég að sleppa allri afbrýðissemi sem fylgir því að hlusta á börnin mín tala um föður sinn og alla frábæru eiginleika hans. Ég reyni að taka undir með þeim og segja hverju heppin þau séu að eiga svona góðan föður. Þau segja nákvæmlega það sama um mig þegar þau eyða tíma með föður sínum, haha.

  5. Stuttu eftir skilnaðinn fannst mér mjög erfitt að vera ein og án barnanna vikurnar sem þau eyddu hjá föður sínum. Með tíð og tíma vandist ég fyrirkomulaginu og hef í dag lært að njóta tímans enda gefandi fyrir mig, föður þeirra og þau. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert