Hvenær mega börn smakka hunang?

Hunang hentar ekki fyrir börn yngri en eins árs.
Hunang hentar ekki fyrir börn yngri en eins árs. Samsett mynd

Börn á fyrsta aldursári eiga ekki að neyta hunangs en slíkt getur valdið alvarlegum veikindum. Vefsíðan Kids Health leitaði svara við spurningunni, Af hverju mega ungabörn ekki fá hunang?

Bótulismi er eitrun af völdum Clostridium botulinum, grómyndandi bakteríu, sem getur valdið alvarlegum veikindum með lömun sem leitt getur til dauða. Bakterían finnst reglulega í hunangi og eru meltingarkerfi í ungabörnum of viðkvæm til að melta það, fyrsta ár ævinnar.

Foreldrar geta hjálpað til við að koma í veg fyrir bótúlisma hjá ungabörnum með því að gefa þeim ekki hunang eða unnin matvæli sem innihalda hunang, eins og ákveðnar kexkökur.

Eftir fyrsta afmælisdaginn er þó í lagi að kynna börn fyrir hunangi og græðandi eiginleikum þess. Samkvæmt Kids Health þá er meltingarkerfið byrjað að styrkjast og getur flutt bakteríugró í gegnum líkamann án þess að þau valdi skaða.

Bótulismi er mjög sjaldgæf eitrun og hefur aðeins greinst hérlendis fjórum sinnum frá árinu 1983 og aldrei í tengslum við hunang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert