Svona tekst þú á við kvíða í upphafi nýs skólaárs

Unsplash/Scott Webb

Sumarið er senn á enda og nýtt skólaár er fram undan. Á meðan mörg taka rútínulífinu fagnandi þá eru ekki öll jafn ánægð með að þurfa að takast á við hinn hefðbundna hversdagsleika fullan af áætlunum eftir sveigjanlegt sumarfrí. 

Vefsíðan Parents tók saman nokkur ráð til að takast á við kvíða sem getur fylgt því að fara aftur í skólann, í samráði við klíníska sálfræðinginn Sarah Spannagel og foreldraráðgjafann Deborah Gilboa.

Talið saman

Til að hjálpa börnum að venjast minni sveigjanleika, sem oft fylgir sumarfríinu, og koma sér aftur í skólagírinn er mikilvægt að tala við börnin um hvað það er sem veldur hjá þeim kvíða. Ef börnin eru orðin nógu stór er gott fyrir foreldra að hreinlega spyrja hvað þeir geta gert svo að börnunum líði betur. 

Gott er að minna börn á að allar tilfinningar hafa rétt á sér, þetta er bara spurningin um að vinna úr tilfinningunum.

Haldið fjölskyldufundi

Gilboa mælir með að halda vikulega fjölskyldufundi til að fara yfir komandi viku. Með slíkum fundum er hægt að ákvarða hvaða þættir það eru sem börnunum finnast flóknir og kvíðavaldandi og ræða svo hvernig þið getið ráðið úr því. Þetta á sérstaklega við ef einhver frávik frá hefðbundinni dagskrá eru yfirvofandi, eins og ferðalög foreldra eða íþróttakeppnir barnanna.

Mælir Gilboa með því að slíkir fundir séu haldnir á sunnudögum, svo öll fjölskyldan sé tilbúin í vikuna strax á mánudegi.

Viðurkennið tilfinningar barnanna

Samkvæmt Gilboa er mikilvægt fyrir foreldra að viðurkenna tilfinningar barnanna og alls ekki segja þeim hvernig þeim á að líða. Sem dæmi má taka að segja ekki við barnið að því finnist alltaf svo gaman í skólanum eða að barnið þurfi ekki að hafa áhyggjur af neinu. Þess í stað ættu foreldrar að hlusta á áhyggjur barna sinna og reyna svo í sameiningu við þau að finna lausn á vandanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert