Mikilvægt að halda í húmorinn þrátt fyrir þreytu

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV, segir mikilvægt að hafa …
María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV, segir mikilvægt að hafa húmorinn að leiðarljósi í barnauppeldinu. Ljósmynd/Aðsend

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV, er mikil fjölskyldumanneskja og leggur ríka áherslu á árangursríkt barnauppeldi. María Sigrún á þrjú börn; Hilmar Árna, ellefu ára, Sigurlaugu Margréti, níu ára og Ingu Sigrúnu, fimm ára. Þann barnafjölda segir hún fulkominn fyrir sinn smekk. 

„Nei, ég er mjög sátt með þetta svona,“ segir María Sigrún aðspurð hvort hana langi til að eignast fleiri börn í náinni framtíð en hún fagnaði 44 ára afmæli fyrr í sumar. 

„Það er mikilvægt að muna að barnæskan er í raun örstutt og það er mikilvægt að njóta hvers tímabils eins vel og hægt er og hafa húmorinn að leiðarljósi, jafnvel þegar þú ert örmagna,“ bendir hún á.

Sælleg eru þau. María Sigrún og börnin þrjú; Hilmar Árni, …
Sælleg eru þau. María Sigrún og börnin þrjú; Hilmar Árni, Sigurlaug Margrét og Inga Sigrún. Ljósmynd/Aðsend

María hefur tileinkað sér stöðugleika í barnauppeldinu og segir afar mikilvægt að foreldrar séu skýrir og samkvæmir sér þegar litið er til reglna og fyrirmæla. 

„Ég er með fáar en mjög strangar reglur. Ég held að það sé betra en að vera með mjög margar reglur. Það finnst öllum erfitt og leiðinlegt að vera þar sem eru of margar reglur. Það er þreytandi og endar oftast með því að foreldrar fara að gefa afslátt af reglunum. Það ruglar börnin,“ segir hún. 

„Ég geri mistök í uppeldinu eins og allir aðrir en ég get deilt nokkrum ráðum sem hafa reynst okkur vel,“ segir María Sigrún og ljóstrar upp nokkrum góðum uppeldisráðum sem hún hefur helgað sér.

Fjölskyldan saman í dásamlegri utanlandsferð.
Fjölskyldan saman í dásamlegri utanlandsferð. Ljósmynd/Aðsend

Fimm hagnýt uppeldisráð Maríu Sigrúnar:

1. Sýndu eins mikla nánd og kærleik og þú lifandi getur. Leyfðu börnunum þínum að finna og heyra hvað þú elskar þau mikið. Þannig að þau efist aldrei um það.

2. Sýndu samkennd og skilning. Þannig læra börnin betur að þroska tilfinningar sínar og líðan. Leyfðu þeim að tjá sig að fullu og spurðu hvernig þeim líður og hvers vegna þeim líður þannig. Ekki dæma strax. Hlustaðu og leggðu skynsamt mat á aðstæður og eða atburðarás áður en þú leiðbeinir og eða skammar. Útskýrðu skammirnar ef þú þarft að skamma en farðu sparlega með þær. Börn þurfa að læra á tilfinningar sínar og annarra eins og þau læra um liti. Möguleikarnir eru óteljandi.

3. Stattu við gefin loforð. Meiri líkur á að börnin verði traust og áreiðanleg ef þú stendur við það sem þú segir.

4. Sýndu staðfestu og vertu góð fyrirmynd. Ekki láta undan ef þú ert búin að segja nei við einhverju. Segðu frekar strax já heldur en að segja fimm sinnum nei en svo gefast upp og segja já því þú nennir ekki meira suði eða væli. Þetta getur reynt á en er þess virði og er mikilvægt svo þau læri að virða mörk.

5. Ekki vera þyrlubjörgunarsveit. Fylgstu með áður en þú stígur inn í aðstæður þar sem barnið er að koma sér í hættu og eða vandræði. Ég reyni að grípa ekki inn í fyrr en barnið er við það að fara að meiða sig og eða aðra, eða skemma hluti. Þetta krefst þolinmæði. Ég hef séð börnin mín leysa ótrúlegustu verkefni, vandamál og ágreining með þessu. Ég held að með þessu verði þau útsjónarsamari, áræðnari, þolinmóðari og meiri og betri samninga- og sáttamenn. Þau læra betur að þekkja og virða sín eigin mörk og annarra.

Inga Sigrún litla í faðmi mömmu sinnar og móðurömmu- og …
Inga Sigrún litla í faðmi mömmu sinnar og móðurömmu- og afa. Ljósmynd/Lilja Birgis
Fallegri gerast fjölskyldumyndirnar ekki.
Fallegri gerast fjölskyldumyndirnar ekki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert