Fimm helstu mistök foreldra á samfélagsmiðlum

Unsplash/Vitolda Klein

Að deila lífi barnanna okkar á samfélagsmiðlum er auðveldasta leiðin til að tengja saman vini og vandamenn úti um allan heim. Hins vegar verður að hafa öryggi barnanna í huga þegar slíkt er gert. Sem foreldri er gott að spyrja sig hverjir munu sjá það sem þú deilir, hver sé tilgangurinn með því að deila og hvort þér finnist það í lagi að einhver sem þú þekkir ekki sjái það sem þú deilir. 

Vefsíðan Parents tók saman fimm helstu mistök foreldra þegar kemur að samfélagsmiðlum.

Öryggi samfélagsmiðla er ekki rætt á heimilinu

Börnin okkar sem alast upp á stafrænni öld eru tengdari umheiminum en nokkru sinni fyrr. Þótt þessi kynslóð viti líklega allt um virkni spjaldtölvunnar og skilji snjallsímann inn og út, þá er auðvelt að gleyma því að þau eiga enn eftir að læra mikið þegar kemur að því að greina áhættur samfélagsmiðla. Ekki túlka kunnáttu þeirra sem getu til að taka góðar ákvarðanir á netinu.

Mælt er með því að eiga samræður um friðhelgi einkalífsins, öryggi, sjálfsmynd, orðspor og hvað sé viðeigandi og ásættanlegt fyrir fjölskylduna á samfélagsmiðlum. Ef foreldrar eru meðvitaðir um virkni barnanna sinna á samfélagsmiðlum geta þeir sett reglur sem setja skýr mörk og væntingar. 

Þú deilir myndum sem gefa upp persónulegar upplýsingar

Með því að birta myndir af börnunum þínum á netinu gætir þú óafvitandi afhjúpað fjársjóð persónuupplýsinga, eins og fæðingardag og staðsetningar, sem hægt er að nota í slæmum tilgangi. Ofgnótt persónuupplýsinga á netinu gerir fjölskyldur viðkvæmari fyrir ýmsum skaða. Auðvelt er að safna upplýsingum um barn, fylgjast með starfsemi fjölskyldunnar og hugsanlega nota myndir á þann hátt sem þeim var ekki ætlað.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að allt sem foreldri birtir á netinu hefur að geyma upplýsingar sem eru verðmætar fyrir auglýsendur og gagnasöfnunaraðila.

Þú birtir myndir af öðrum börnum án leyfis

Það er ótrúlega mikilvægt að sýna aðgát við að sýna önnur börn í færslum þínum. Skólaviðburðir, íþróttamót eða ættarmót eru dæmi um viðburði þar sem slíkt gæti átt sér stað. Foreldrar ættu alltaf að biðja um leyfi áður en þeir birta myndir af öðrum börnum á samfélagsmiðlum sínum. Ef þú ert óviss er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og sleppa því að deila myndinni eða klippa hin börnin út úr henni.

Þú stillir ekki persónuverndarstillingar

Við vitum nú þegar að afhjúpun viðkvæmra persónuupplýsinga barna getur haft í för með sér verulega hættu fyrir öryggi þeirra og velferð. Þess vegna er afar mikilvægt fyrir foreldra að skoða persónuverndarstillingar samfélagsmiðla. Aðgangur að samfélagsmiðlum þínum ætti að takmarkast við trausta einstaklinga. Gakktu úr skugga um að þú takir þér tíma til að skoða persónuverndareiginleika vettvangsins sem þú vilt deila efni á, þar sem það eru alltaf nýir eiginleikar í notkun.

Góð þumalputtaregla til að hafa til hliðsjónar áður en þú deilir er að gæta þess að innihaldið innihaldi ekki upplýsingar sem þú myndir ekki vilja að ókunnugur vissi.

Þú deilir vandræðalegu efni

Hin ýmsu myndbönd eða myndir geta svo sannarlega verið fyndin en hafðu í huga hvernig börnunum þínum gæti liðið þegar þau finna það á netinu eftir tíu ár. Mælt er með því að hafa allt efni sem þú deilir af börnunum jákvætt.

Að birta vandræðalega eða of persónulega þætti í lífi barnsins þíns á samfélagsmiðlum getur haft neikvæð áhrif á samband þitt við barnið og hugsanlega skert núverandi traust eða framtíðartraust þess á þér sem foreldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert