Ráð til að vinna á aðskilnaðarkvíða ungra barna

Unsplash/Kelly Sikkema

Flestir foreldrar kannast við það að kveðja barnið sitt og það byrjar strax að gráta. Það er mjög eðlilegt að það gerist annað slagið en ef það gerist í hvert sinn sem þú kveður barnið glímir það líklega við aðskilnaðarkvíða.

Hér eru nokkur ráð um hvernig á að hjálpa börnum sem glíma við aðskilnaðarkvíða frá vefsíðunni Parents. Ráðin eru sett upp í samráði við Heather Clarke, aðjúnkt í sérkennslu og þroskasálfræði barna.

Einkenni aðskilnaðarkvíða

Aðstæður eins og kveðjustundir, mannamót eða svefntími geta valdið því að börn finna fyrir aðskilnaðarkvíðanum. Í slíkum aðstæðum finna börnin fyrir því að þau séu í burtu frá umönnunaraðila sínum og það getur komið fram sem kvíði.

Nokkur merki um aðskilnaðarkvíða er að þegar foreldri býr sig undir að fara frá barninu, hvort sem það er í stutta stund eða til lengri tíma, haldi barnið fast í foreldrið, sýni af sér mikla frekju, veiti öðrum umönnunaraðilum viðnám eða sýni merki um ótta.

Ráð til að hjálpa barninu

  • Haltu kveðjustundum stuttum. Gott er að hafa búið barnið undir aðskilnaðinn fyrir fram til að koma í veg fyrir að aðskilnaðurinn komi því í opna skjöldu. 

  • Forðastu að laumast út á meðan barnið tekur ekki eftir því. Slíkt getur aukið áhyggjur barnsins um að þú komir ekki aftur. Mikilvægt er að fullvissa barnið um að þú komir aftur.

  • Komdu þér upp rútínu þegar kemur að kveðjustundum. Til dæmis er hægt að segja hvenær þú kemur aftur, faðma barnið og fara svo. Með því að halda kveðjustundunum eins í hvert skipti er líklegra að barnið venjist því að þurfa að vera án þín í einhvern tíma.

  • Vertu viss um að hunsa ekki kvíða barnsins. Sem dæmi er hægt að segja barninu að þú sért viss um að það muni skemmta sér vel á meðan þú ert í burtu, en að þú munir sakna barnsins á meðan.

  • Verið með róandi svefnrútínu. Þetta mun hjálpa barninu að venjast því að þurfa að fara að sofa á ákveðnum tíma og getur komið í veg fyrir að barnið finni fyrir kvíða þegar kemur að háttatíma. Til dæmis má notast við róandi hljóð til að undirbúa barnið fyrir svefninn eða leyfa því að leggjast niður með sama bangsann.

  • Ekki hlaupa strax til barnsins þegar það vaknar eftir lúr. Ef barnið virðist liggja eða sitja ánægt í rúminu sínu eftir að það vaknar er óþarfi fyrir þig að hlaupa beint til þess. Leyfðu frekar barninu að njóta þess að vera eitt með sjálfu sér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert