Fjölskyldudagatal getur reddað tilverunni

Unsplash/Bich Tran

Þegar börn eru komin til sögunnar getur lífið orðið erilsamt. Foreldrar þurfa að halda utan um frístundastarf, foreldrasamkomur, bólusetningar, leikdaga, tannlæknatíma og þess háttar sem þarf að muna eftir og mæta á réttum tíma í. Foreldarnir, eða aðrir umönnunaraðilar, verða að vita hver sér um að sækja eða ná í börnin og hvenær. Einnig þarf að taka tillit til eigin vinnu og félagslífs.

Markmiðið með fjölskyldudagatali er að halda skipulagi varðandi alla þessa tíma og athafnir svo allt gangi nú snurðulaust fyrir sig. Slík dagatöl geta hljómað yfirþyrmandi í fyrstu en til lengri tíma litið munu þau koma í veg fyrir óþarfa ágreining og streitu og eru því svo sannarlega þess virði.

Hér eru nokkur ráð við gerð slíkra fjölskyldudagatala.

Notaðu dagatal sem allir fjölskyldumeðlimir hafa aðgang að

Megintilgangurinn með fjölskyldudagatali er að halda öllum fjölskyldumeðlimum vel upplýstum. Allir þurfa að vita hvernig dagskráin er og hvort einhver dagur sé laus fyrir það sem þeir gætu viljað skipuleggja. Augljóslega eru ungabörn ekki tekin með hér, en jafnvel ung börn sem eru rétt byrjuð að lesa munu njóta góðs af því að sjá dagatal fjölskyldunnar.

Tvær leiðir eru til þess að tryggja að dagatalið þitt sé aðgengilegt öllum fjölskyldumeðlimum sem þurfa að sjá það. Annars vegar er hægt að setja upp efnislegt dagatal einhvers staðar í húsinu þar sem allir komast að því, eins og í eldhúsinu. Hins vegar er hægt að notast við stafrænt dagatal.

Ef þú velur að nota stafrænt dagatal getur þú breytt stillingunum þannig að mismunandi fjölskyldumeðlimir séu með mismunandi aðgangsheimildir. Sem dæmi geta foreldrarnir breytt dagatalinu á meðan börnin geta aðeins skoðað það. Börnin verða því að spyrja foreldrana hvort bæta megi einhverju við það.

Litakóðun

Litakóðun fjölskyldudagatalsins hjálpar til við að skýra hver á að gera hvað. Með því að gefa hverjum og einum fjölskyldumeðlimi sinn eigin dagatalslit er betra að sjá athafnir hvers og eins í fljótu bragði.

Hægt er að litakóða bæði útprentuð og stafræn dagatöl. Fyrir það prentaða er gott að vera með krukku af mismunandi lituðum pennum sem þú getur notað til að skrifa athafnir hvers og eins. Þetta hjálpar líka til við að spara pláss á útprentuðum dagatölum því þú þarft ekki að skrifa nafn hvers og eins.

Haldið fjölskyldufundi

Áður en þið byrjið að nota fjölskyldudagatalið í fyrsta skiptið, skuluð þið halda fjölskyldufund til að ræða hvað þið gerið og hvers vegna. Útskýrðu allt það sem fjölskyldumeðlimirnir þurfa að vita.

Í framhaldi er gagnlegt að halda reglulega fjölskyldufundi til að ræða dagatalið. Þetta gefur öllum tækifæri á því að deila því sem þau gætu þurft að bæta við dagatalið eða til að finna út úr því hvernig á að takast á við áætlanir sem stangast á. Fundirnir þurfa hvorki að vera haldnir of oft né vera of langir. Tíu til fimmtán mínútur einu sinni í viku ættu að duga til að ræða væntanlegar áætlanir og skuldbindingar.

Mikilvægt að dagatalið sé vel skipulagt

Byrjið á því að finna út hvað er í forgangi, hvort sem það er frí og ferðalög eða óskipulagður tími fyrir hvíld og leik á hverjum degi. Bættu þessu fyrst inn á dagatalið ásamt öðrum mikilvægum fjölskylduskuldbindingum áður en einstaka áætlanir eru settar inn.

Næst er gott að fara yfir mikilvæg skylduverk heima fyrir, eins og húsverk, heimavinnu og slíkt, og bæta því inn í dagatalið. Leyfðu einnig börnunum að biðja um tíma á dagatalinu fyrir eigin félagslíf og frítíma.

Mikilvægt er í fyrstu að hvetja fjölskyldumeðlimi til þess að nota dagatalið til að finna upplýsingar. Þetta mun hjálpa þeim að byggja upp þann vana að nota dagatalið.

Verywell Family

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert