Svona eykur þú lestraráhuga barnsins þíns

Unsplash

Flestum börnum, allt frá ungabörnum til barna á leikskólaaldri, líkar að hlusta á sögur enda er lestur mikilvægur fyrir þroska, nám og framtíð barnsins. Hins vegar getur lestur orðið að leiðindaverki hjá mörgum eldri börnum, sérstaklega þegar raftækin fara að keppast um frítíma þeirra. Bæði skóli og foreldrar skipuleggja lestrartíma fyrir börn en það þýðir ekki börnin verði hrifin af lestri. Reyndar geta tilraunir til að fá barnið þitt til að lesa stundum ýtt undir neikvæðni í sambandi við lestur.

Sem betur fer eru margar árangursríkar aðferðir sem foreldrar geta notað til að hjálpa barninu að njóta þess að lesa frekar en að óttast lesturinn. Hér á eftir eru nokkur ráð til að efla ánægju barna þegar kemur að lestri.

Lestu upphátt fyrir barnið

Sérfræðingar eru sammála um að lesa með barninu sé einfaldlega besta leiðin til að efla áhuga barnsins á lestri. Stefndu að því að gera lestur að félagslegri athöfn í stað þess að hann fari fram í einrúmi, svo lesturinn byggi upp tengsl, þekkingu og forvitni. Lestur ætti að vera skemmtilegur og gagnvirkur og grundvöllur fyrir margar spurningar.

Ekki líta á lestur eingöngu sem tæki til að kenna barninu að lesa. Í staðinn skaltu einbeita þér að ánægjunni við að lesa og heyra sögur. Barnið þitt græðir á því að einfaldlega hlusta. Eins mikilvægt og það er að lesa fyrir yngri börn, þá ættir þú líka að lesa fyrir eldri börn, jafnvel þótt þau séu orðin læs. Eftir því sem þau verða eldri getur þú aukið lengd og fágun textans. Þetta mun örva hugmyndaflug þeirra og byggja upp orðaforða og skilning. 

Talaðu um sögurnar við barnið

Þegar þú lest upphátt fyrir barnið þitt, skaltu verja tíma í að skoða myndirnar og tala um það sem þið sjáið. Þessi nálgun mun stuðla að meiri skilningi og þátttöku barnsins. Þú getur líka notað rödd þína til að lífga upp á söguna. Þegar þú lest skaltu gera hlé og spyrja spurninga. Að tala um sögurnar getur hjálpað til við að vekja þær til lífsins og munu hjálpa til við að byggja upp skilning, gagnrýna hugsun og almenna ánægju.

Ef barninu þínu finnst eitthvað vera óljóst í því sem þú lest upphátt er gott að gera hlé á lestrinum og ræða það. Með því sýnir þú barninu gott fordæmi með því að segja að það sé í lagi að staldra við og hugsa þegar þú lest. Auk þess byggir það upp dýpri skilning og getur skapað tengsl á milli textans, lífs barnsins og heimsins í kringum það.

Lestu oft

Með því að lesa oft og reglulega verður lesturinn að vana. Reyndu að hafa lestratíma eins oft yfir daginn og mögulegt er. Lestrartíminn getur falið í sér að börn skoði eða lesi bækur ein eða láti fullorðinn einstakling lesa bók fyrir sig. Að auki skaltu miða við 15 til 30 mínútna daglegan lestur fyrir háttatíma.

Þegar lestur er orðinn að hluti af dagskrá dagsins er líklegra að börn lesi sjálf og njóti lestursins. Ekki gefast samt upp eða ætlast til þess að barninu líki lesturinn strax. Það getur tekið sinn tíma að kveikja áhugann. Lestur er eins og allar aðrar athafnir, því oftar sem þú lest því betri verður þú í því. Því betri sem þú ert í lestri því ánægjulegri verður lesturinn.

Byggðu upp forvitni og áhuga

Veldu bækur sem endurspegla áhugamál barnsins þíns, hvort sem það eru fiðrildi, íþróttir, verkfæri, álfar eða ofurhetjur. Þetta mun hjálpa barninu þínu að taka þátt í lestrinum. Þú getur líka leyft barninu þínu að velja sínar eigin bækur.

Ef þú ert ekki viss um hvar þú átt að byrja skaltu biðja um meðmæli frá kennurum, vinum, bókavörðum og öðrum foreldrum. Gakktu úr skugga um að þú finnir bækur með persónum sem líkjast barninu þínu og fjölskyldu.

Skoðaðu hvað það er sem barninu mislíkar við lestur

Ef barnið þitt er sérstaklega neikvætt, bæði þegar kemur að því að lesa sjálft og láta lesa fyrir sig, gæti það verið merki um undirliggjandi námsvandamál. Í hvert sinn sem börn sýna gremjuhegðun í sambandi við lestur þá er kominn tími til að spyrja hver sé ástæðan á bak við það. Vertu viss um að tala við kennara barnsins ef þú hefur einhverjar áhyggjur og/eða til að útiloka til dæmis lesblindu.

Haltu samt væntingum þínum um hvenær barnið þitt mun læra að lesa í hófi. Flest er innan eðlilegra marka og gefur ekki endilega til kynna vandamál í tengslum við lestrarhæfileika barnsins þíns.

Vertu góð fyrirmynd

Sérfræðingar sannmælast um að það sé lykilatriði að barnið þitt sjái foreldra sína reglulega lesa sér til ánægju. Reyndu að gefa þér eins oft og þú getur tíma yfir daginn til að slaka á, sitja og lesa. Að sjá þig lesa gefur til kynna að lestur sé ánægjulegur.

Það sem þú lest þarf ekki endilega að vera bók. Það getur verið dagblað eða uppskriftir, bæði á prenti og vefmiðlum. Aðalatriðið er að lesa nóg fyrir framan börnin þín.

Verywell Family 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert