Vill koma í veg fyrir frekjuköst sonarins

Pexels/Keira Burton

Tveggja barna móðir er orðin þreytt á frekjuköstum sonar síns eftir að hann kemur heim úr leikskólanum. Hún leitar því ráða hjá sérfræðingi.

„Ég er móðir tveggja drengja sem eru fjögurra og tveggja ára. Alla virka daga fer eldri sonur minn í leikskólann en sá yngri er heima í umsjá móður minnar. Við hjónin erum bæði í fullu starfi en þar sem vinnutími okkar er sveigjanlegur sjáum við strákana okkar á hverjum degi og veitum við þeim mikla ást, knús og hrós.

Eldri sonur okkar hefur alltaf verið erfiður. Hann er þurfandi, þrjóskur og fer auðveldlega að gráta ef hann fær ekki sínu framgengt. Hins vegar hefur hegðun hans við heimkomuna úr leikskólanum versnað til muna undanfarnar vikur og okkur finnst hann koma með óeðlilegar kröfur.

Við teljum að þetta tengist því að vinur hans úr leikskólanum hefur verið í fríi í mánuð. Við höfum útskýrt aðstæðurnar fyrir honum og hvatt hann til að leika við önnur börn. Við hjónin höfum bæði fundið fyrir miklu álagi og ein af afleiðingunum er sú að við höfum ekki náð að sinna yngra barninu sem skildi.

Við höfum reynt að ræða við hann með ýmsum hætti. Ég hef hvatt hann, ég hef ásakað og skammað hann, ég hef hótað honum og ég hef meira að segja slegið hann. Samt sem áður sýnir hann af sér sömu hegðun næsta dag sem einkennist af óréttmætum frekjuköstum.

Getur þú veitt einhverja innsýn í hvað gæti verið að gerast og hvernig við getum hjálpað syni okkar að takast á við þetta, sem og okkur sem fjölskyldu? Á hvaða aldri greinast börn með einhverfu og ADHD?“

Svar sérfræðingsins:

„Það er áhugavert að þú segir að litli drengurinn þinn komi til þín með óeðlilegar kröfur því frá hans sjónarhóli gerir þú það sama. Það er erfitt að aðlagast fyrst eftir að þú eignast barn, sérstaklega ef þú ert vön því að hlutir séu gerðir á ákveðinn hátt og fólk geri eins og þú biður það um.

Við skulum reyna að sjá þetta frá sjónarhorni sonar þíns. Hann skilur líklega ekki hvers vegna hann þarf að fara í leikskólann á meðan yngri bróðir hans fær að vera heima hjá ömmu. Ef þú og maðurinn þinn eruð bæði heima finnst honum líklega eins og verið sé að senda hann í burtu. Þegar hann reynir að koma til þín með áhyggjur sínar hefur hann ekki aðeins mætt hvatningu og hrósi, heldur einnig hótunum, skömm og líkamlegu ofbeldi. Það er örugglega ruglandi og hrikalegt fyrir hann.

Þú hefur reynt að rökræða við hann en sá hluti heilans sem vinnur úr rökræðum hefur líklegast ekki náð nægum þroska hjá honum. Dagatal sem sýnir hversu margir dagar eru í að vinur hans kemur heim gæti eflaust hjálpað til.

Hvað annað gæti verið að trufla hann? Hver sem ástæðan er þá er litli drengurinn þinn að ögra þér. Þú gætir þurft að líta til þinnar eigin fortíðar til að finna út hvers vegna. Kannski varst þú alin upp með þeim hætti að á tímum streitu hafi foreldrar þínir brugðist við með skelfingu.

Sonur þinn virðist vera mjög kvíðinn drengur. Honum finnst breytingar vera yfirþyrmandi og veit ekki hvernig hann á að bregðast við þeim. Þegar börn verða svona reyna þau að stjórna því með því að festast í ákveðnu fari og hafa ekki stjórn á tilfinningum sínum. Hann er í raun að biðja um hjálp, frekar en að vera eigingjarn eða í vondu skapi. Þú getur ekki lagt ábyrgðina á breytingunum á hann, með því hrannast álagið á hann bara upp.

Þú virðist líka vera föst í ákveðnu fari. Að grípa til hótana og ofbeldis mun bara auka kvíðann og afturheldnina. Það gæti litið þannig út að honum líði betur en í raun lærir hann ekkert annað en að vera hræddur, sem hann er nú þegar.

Þegar hann kemur heim reyndu að gefa honum smá svigrúm til að vera hann sjálfur og að hann sé skilinn. Þú getur sagt við hann að þér þyki það leitt að þú hafir ekki verið á staðnum eða að hann hljómi eins og hann sé í uppnámi. Þetta virðist einfalt en það virkar. 

Sonur þinn gæti glímt við taugaþroskaröskun en það er ekki að greina slíkt með einu bréfi. Jafnvel þótt hann glími við slíka röskun þarftu samt að hlusta á hann og hjálpa honum að ráða úr þessu. Ef þig grunar að hann þurfi á greiningu að halda skaltu hafa samband við heimilislækninn þinn.

Gætir þú tekið þér smá frí frá vinnu, jafnvel þótt það sé ekki lengur en klukkutími, til að eyða tíma með syni þínum? Ekki reikna með árangri um leið, þetta mun taka tíma en verður þess virði.“

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert